Skip to main content

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands haldinn á Höfn í Hornafirði

Með 4. september, 2009febrúar 13th, 2019Fundir og ráðstefnur

74. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn á Höfn í Hornafirði dagana 28.-30. ágúst 2009.

Skógræktarfélag A-Skaftfellingar var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Fundinn sóttu á annað hundrað fulltrúar skógræktarfélaganna, alls staðar af landinu, og tókst fundurinn vel.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgun með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Elínar S. Harðardóttur, formanns Skógræktarfélags A-Skaftfellinga, Hjalta Þórs Vignissonar, bæjarstjóra Hornafjarðar og Þrastar Eysteinssonar, sviðsstjóra þjóðskóga hjá Skógrækt ríkisins. Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf.

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Byrjað var á að aka suður á Mýrar að Hellisholti og skoðuð skógrækt þar í blíðskaparveðri. Því næst var haldið á svæði Skógræktarfélags A-Skaftfellinga að Haukafelli á Mýrum, þar sem vígð var ný brú að svæðinu og farið í gönguferð um skóginn. Gustaði hressilega um fundargesti í Haukafelli og kom þá vel í ljós hversu gott skjól fæst af skóginum.

Á laugardagsmorgun hófst dagskrá á fjórum fræðsluerindum. Ari Þorsteinsson, verkefnisstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, hélt erindi er nefnist Virkjum sköpunarkraftinn sem í okkur býr, Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor fjallaði um landnám og útbreiðslu birkis á Skeiðarársandi, Helgi Björnsson jarðeðlisfræðingur fjallaði um jökla og loftslagsbreytingar á Íslandi og Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóga hjá Skógrækt ríkisins fjallaði um framtíðarsýn í íslenskri skógrækt.

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð um skóga í nágrenni Hafnar, í sólskini og ágætis veðri. Byrjað var á göngu að Hrossabithaga, gengið þaðan í Hafnarskóg og endað í Einarslundi, þar sem minningarsteinn um Einar Hálfdánarson var vígður.

Um kvöldið var svo boðið til hátíðarkvöldverðar. Þar veitti Skógræktarfélag Íslands viðurkenningar fyrir störf í þágu skógræktar og tóku handhafar viðurkenninganna við þeim úr hendi Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, en það voru  Guðjón Sveinsson og Jóhanna Sigurðardóttir, Guðjón Jónsson, Bjarni Hákonarson og Finndís Harðardóttir, Ingimar Sveinsson og Björn Bjarnarson. Einnig voru þeim skógræktarfélögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir félagsins, en það voru Skógræktarfélag Skilmannahrepps (70 ára) og Skógræktarfélag Kópavogs (40 ára).

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, tillagna og kosning stjórnar, en fundi lauk um hádegi.

Eftir hádegi var svo boðið upp á skoðunarferð í Steinadal í Suðursveit, fyrir þá sem áhuga höfðu og nýttu margir sér það tækifæri. 

Svipmyndir af fundinum:

adalfundursi-setning
Á annað hundrað fulltrúar mættu á aðalfundinn, sem settur var í Nýheimum á Höfn í Hornafirði, föstudaginn 28. ágúst (mynd: RF).

adalfundursi-haukafell
Fundargestir njóta skjólsins í skóginum í Haukafelli á Mýrum, sem er í umsjá Skógræktarfélags A-Skaftfellinga (mynd: BJ).

adalfundursi-vidurkenningar
Skógræktarfélag Íslands  veitti viðurkenningar fyrir störf í þágu skógræktar og tóku handhafar viðurkenninganna við þeim úr hendi Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra. F.v. Svandís Svavarsdóttir, Guðjón Sveinsson og Jóhanna Sigurðardóttir, Guðjón Jónsson, Bjarni Hákonarson og Finndís Harðardóttir, Ingimar Sveinsson, Björn Bjarnarson og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands (mynd: RF).

adalfundursi-einarslundur
Guðrún Hálfdánardóttir afhjúpar minnisvarða um bróður sinn Einar, í Einarslundi við Höfn (mynd: RF).

adalfundursi-hafnarskogur
Fundargestir njóta útiveru og sólskins í Hafnarskógi (mynd: BJ).