Skip to main content
Flokkur

Fræðsla

Frækorn nr. 33 komið út

Með Fræðsla

33. tölublað Frækornsins er komið út. Nefnist það sólber og fjallar það í stuttu máli um helstu atriði er huga þarf að við ræktun sólberja og helstu yrki er reynst hafa vel hér á landi.

Höfundur er Steinar Björgvinsson skógfræðingur, en Helgi Þórsson teiknaði myndir.
Frækornið fylgir með áskrift að Skógræktarritinu, en einnig er það selt í lausasölu. Hægt er að fá öll útkomin Frækorn í sérstakri safnmöppu.

Nánari upplýsingar undir Frækorninu hér á heimasíðunni.

fkorn33-forsida

Námskeið: Efling berjaræktar á Íslandi

Með Fræðsla

Í haust eru liðin 75 ár frá því Garðyrkjuskóli ríkisins hóf starfsemi sína á Reykjum í Ölfusi og af því tilefni efnir Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ) til námskeiðs þar sem megin þemað er efling berjaræktar á Íslandi.

Norski garðyrkjuráðunauturinn Åge Jørgensen mun fjalla um eflingu berjaræktunar, bæði úti og inni, í Noregi síðustu ár, en hann hefur þróað nýjar aðferðir við ræktun berja í gróðurhúsum og köldum dúkhúsum.

Einnig verður farið yfir stöðu mála á Íslandi í dag. Sérfræðingar munu fjalla um rannsóknaverkefni undanfarinna ára og framleiðendur og ræktendum munu fjalla um ýmsar tegundir berja- og ávaxtaplantna, kosti þeirra og galla.

Námskeiðið er haldið föstudaginn 14. nóvember, kl. 9:00-16:00 hjá LbhÍ á Reykjum í Ölfusi.
Verð: 12.900 kr. (innifalið eru námsgögn, kaffiveitingar og léttur hádegisverður)

Nánari upplýsingar á heimasíðu LbhÍ: www.lbhi.is/namskeid.

Námskeið um kransagerð úr náttúrulegum efniviði

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Reykjavíkur stendur fyrir námskeiði um kransagerð úr náttúrulegum efniviði fimmtudaginn 23. október. Er námskeiðið haldið að Elliðavatni í Heiðmörk, kl. 9:30-16:00.

Sýnikennsla verður í gerð kransa (haustkransa, jólakransa) með efni úr íslenskri náttúru og íslenskum skógum – könglakransar, grenikransar og greinakransar. Þátttakendur fá tækifæri til að binda sína eigin kransa og mega gjarnan koma með eitthvert efni með sér eins og greinar, köngla, mosa, hálmkransa og þess háttar. Einnig er gott að hafa með greinaklippur, skæri og vírklippur ef til eru, sem og límbyssu. Ef tími vinnst til verður sett í litlar jólakörfur, þannig að ef þátttakendur eiga litlar bastkörfur eða potta er um að gera að taka það með. Einnig er mælt með að hafa þunna hanska með, t.d. einnota.

Kennari: Steinar Björgvinsson skógfræðingur og blómaskreytir
Verð: 8.000 kr. Kaffi, bakkelsi og hádegisverður innifalið.

Hámaksfjöldi: 20 manns.

Upplýsingar og skráning fyrir 18. október:
Else Möller else.akur@gmail.com GSM: 867-0527
f.h.Skrf. Rvk saevar@heidmork.is GSM: 893-2655

Þemadagur: ræktun jólatrjáa – flokkun og sala

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Reykjavíkur, í samstarfi við Else Möller skógfræðing, stendur í ár fyrir röð námskeiða þar sem sérfræðinga fara ofan í saumana á mikilvægum atriðum í ræktun og umhirðu jólatrjáa. Er nú komið að þemadegi tengdum flokkun og sölu trjáa og verður hann haldinn fimmtudaginn 11. september kl.  9:30-16:00, á Elliðavatni í Heiðmörk.

Dagskrá:

Kl. 9:30-10:00 Sala jólatrjáa á Íslandi. Flokkun, gæðamál og söluaðferðir.
Kynning á dagskrá og viðfangsefni dagsins.
Else Möller skógfræðingur. 
Kl. 10:00-10:45 Sala jólatrjáa hjá Skógrækt ríkisins.
Hvernig fer sala jólatrjá fram hjá Skógrækt ríkisins. Flokkun, söluaðferðir og árangur.
Hreinn Óskarsson, skógfræðingur og skógarvörður á Suðurlandi. 
Kl. 10:45-11:00 Kaffi
Kl. 11:00-12:00 Sala íslenskra jólatrjáa hjá Blómavali.
Sölumál tengd íslenskum jólatrjám séð frá sjónarhóli sölumannsins.
Kristinn Einarsson, framkvæmdastjóri hjá Blómavali
Kl. 12:00-13:00 Hádegismatur
Kl. 13:0-13:30 Íslenskt flokkunarkerfi fyrir alla – hvernig á það að vera?
Tillögur til umræðu.
Else Möller skógfræðingur. 
Kl. 13:30-14:00 Kaffi
Kl. 14:00-15:30 Að velja og flokka jólatré fyrir næstu jól.
Hvenær og hvernig förum við að þessu? 
Farið í reiti í Heiðmörk með trjám sem eru tilbúin fyrir sölu og rætt um gæði og flokkun undir leiðsögn Gústafs Jarls Viðarssonar og Sævars Hreiðarssonar. 
Kl. 15:30-16:00 Kaffi og umræður.

Kostnaður fyrir daginn: 10.000 kr.

Upplýsingar og skráning fyrir 8. september:
Else Möller else.akur@gmail.com GSM: 867-0527
f.h.Skrf. Rvk gustafjarl@heidmork.is GSM: 856-0059

Unglinganámskeið í skógrækt

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Íslands og Útilífsmiðstöð skáta að Úlfljótsvatni standa að námskeiði á Úlfljótsvatni dagana 7.-10. ágúst með það að markmiði að kenna ungmennum (13-17 ára) grunnatriði í sögu, framkvæmd og framtíð skógræktar á Íslandi sem erlendis. Námskeiðið sameinar fræðslu um skógrækt við leiki og útiveru. Tálgun, göngutúrar og kvöldvökur eru hluti af eftirminnilegri helgi á Úlfljótsvatni þar sem öll aðstaða er til fyrirmyndar.

Á námskeiðinu verður meðal annars farið yfir tegundagreiningu og helstu not, landval við plöntun, verkfæri og tæki, skógræktaráætlanir, skógarfánu og flóru, skógarvistþjónustu, sögu skógræktar á Íslandi, stöðuna í dag og framtíðar möguleika.

Farið verður reglulega út um skóga og móa til þess að leyfa þátttakendum að upplifa viðfangsefnið í nærmynd, meðal annars með kennslu í plöntun og áætlunargerð.

Að loknu námskeiðinu munu þátttakendur hafa góðan grunn í skógfræði en vonandi einnig hlýjar minningar og vinabönd með jafnöldrum sínum, sem deila sama áhugamáli.

Áhugasamir geta haft samband í síma 551-8150 eða með tölvupósti á netfangið skog@skog.is

Þátttökugjald er kr. 25.500. Innifalið í því eru öll námskeiðsgögn, gisting og fæði á meðan á námskeiðinu stendur og ferð til Úlfljótsvatns.

 

skognamskeid1

Jólatrjáaræktun – fræðsludagur

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Íslands stendur fyrir fræðsludegi um jólatrjáaræktun undir leiðsögn Else Möller, skógfræðings og sérfræðings í jólatrjáaræktun, mánudaginn 19. maí kl. 9:30-16:30. Fundurinn er haldinn hjá Skógræktarfélagi Íslands, Þórunnartúni 6.

Fyrir hádegi verður meðal annars fjallað um tegundanotkun, ræktunaraðferðir, áburðarnotkun og meðhöndlun trjáa í ræktunartímanum.

Eftir hádegi verður farið upp í Brynjudal í Hvalfirði þar sem verklegir þættir eins og formklipping, topplögun, stofnklipping og fl. verður sýnt. Þátttakendur fá tækifæri til að prófa ýmsa verkþætti og kynna sér verkfæri og annað sem er notað við formun trjáa.

Skráning hjá: skog@skog.is

Nánari upplýsingar hjá Skógræktarfélagi Íslands í síma: 551-8150 eða hjá Else: 867-0527

Fræðslufundur Skógræktarfélags Mosfellsbæjar

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og Mosfellsbær efna til fræðslufundar um skógræktarmál þriðjudaginn 13. maí kl. 17.30. Fundurinn verður haldinn í Listasalnum við Bókasafn Mosfellsbæjar í Kjarna.

Á fundinum mun Samson Bjarnar Harðarson landslagsarkitekt og lektor við Umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands halda erindi um Yndisgróður, garðagróður framtíðarinnar.

Auk þess munu Bjarni Ásgeirsson, garðyrkjustjóri Mosfellsbæjar, og Tómas G. Gíslason, umhverfisstjóri Mosfellsbæjar, fræða stuttlega um þau verkefni sem eru í gangi í Mosfellsbæ og svara fyrirspurnum um gróður og garðyrkju í Mosfellsbæ.

Allir áhugasamir eru boðnir hjartanlega velkomnir og verður heitt kaffi á könnunni.

Fræðslufundur: Birkikynbætur

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Borgarfjarðar og Garðyrkjufélag Íslands standa sameiginlega fyrir fræðslufundi í Alþýðuhúsinu í Borgarnesi (Sæunnargötu 2a) mánudagskvöldið 12. maí kl. 20:00 um birkikynbætur.

Góður árangur af ræktun yrkisins ‘Emblu‘ hefur breytt viðhorfum í ræktun birkis í skógi og borg. Nýtt og spennandi yrki ‘Kofoed‘ er komið á markað og hvítstofna, rauðblaða birki er í sjónmáli.

Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur mun flytja erindi um kynbætur á íslenska birkinu. Kynbótastarfið beinist að verulegu leiti að því að skapa yrki af íslenskri ilmbjörk með háu hlutfalli af kröftugum beinstofna og hvítstofna trjám sem klæða sig vel.

Auk áframhaldandi þróunar Emblu-yrkisins er unnið að kynbótum þar sem norrænt birki er notað til að fá breytt og bætt vaxtarlag og er nýtt yrki, ‘Kofoed‘, árangur þess. Það er nefnt eftir fyrsta skógræktarstjóra Íslands Agner Fransico Kofoed-Hansen sem var frumkvöðull í verndun og nýtingu íslenska birkisins.

Stutt er í að ræktendum bjóðist yrki með rauðan blaðlit og hvítan stofn sem mun henta vel sem garðtré.

Líka verður gerð grein fyrir mjög áhugaverðum möguleikum sem felast í tilraunum og ræktun nýrra birkitegunda sem eiga uppruna sinn í Asíu.

Kaffigjald er krónur 500.

Allir velkomnir.

Félagar eru hvattir til að taka með sér gesti.

Efnið er spennandi fyrir garðyrkju- og skógræktarfólk og ekki síður sumarbústaðeigendur.

Fræðslufundur: Beinvaxið hvítstofna birki með blöð sem minna á rauðar jólakúlur?

Með Fræðsla

Garðyrkjufélag Íslands og Skógræktarfélag Árnesinga standa sameiginlega fyrir fræðslufundi i Þingborg fimmtudagskvöldið 8. maí kl. 20:00 um þær birkikynbætur sem farið hafa fram á síðustu árum.

Góður árangur af ræktun yrkisins ‘Emblu‘ hefur breytt viðhorfum í ræktun birkis í skógi og borg. Nýtt og spennandi yrki ‘Kofoed‘ er komið á markað og hvítstofna, rauðblaða birki er í sjónmáli.

Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur mun flytja erindi um kynbætur á íslenska birkinu. Kynbótastarfið beinist að verulegu leiti að því að skapa yrki af íslenskri ilmbjörk með háu hlutfalli af kröftugum beinstofna og hvítstofna trjám sem klæða sig vel.
Auk áframhaldandi þróunar Emblu-yrkisins er unnið að kynbótum þar sem norrænt birki er notað til að fá breytt og bætt vaxtarlag og er nýtt yrki, ‘Kofoed‘, árangur þess. Það er nefnt eftir fyrsta skógræktarstjóra Íslands, Agner Fransico Kofoed-Hansen, sem var frumkvöðull í verndun og nýtingu íslenska birkisins.

Stutt er í að ræktendum bjóðist yrki með rauðan blaðlit og hvítan stofn sem mun henta vel sem garðtré. Líka verður gerð grein fyrir mjög áhugaverðum möguleikum sem felast í tilraunum og ræktun nýrra birkitegunda sem eiga uppruna sinn í Asíu.

Kaffigjald er krónur 500.

Allir velkomnir.