Skip to main content

Frá aðalfundi Skógræktarfélags Reykjavíkur

Með 22. mars, 2018febrúar 13th, 2019Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Reykjavíkur var haldinn á alþjóðadegi skóga þann 21. mars í sal Garðyrkjufélags Íslands. Fundurinn var vel sóttur og af skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra og ársreikningum má ráða að félagið stendur vel og starfsemin er umfangsmikil. Fjölmörg stór og erfið mál hafa verið ráðin til lykta síðastliðin ár og daginn fyrir aðalfund náðist loks að undirrita samning við fjármálaráðuneytið um kaup á jörðum tveim sem félagið hefur haft á leigu í Fellsmörk. Þá eru viðræður við Reykjavíkurborg um að félagið taki að sér fleiri skógræktarverkefni í borginni og borgarlandinu komnar vel á veg. Vel hefur miðað með umbætur á Múlastöðum í Flókadal og hefur húsakostur jarðarinnar verið lagaður svo um munar og talsvert gróðursett. Til stendur að leigja út íbúðarhúsið til félagsmanna á góðum kjörum. Framundan eru mikil verkefni á löndum félagsins og frekari mótun samstarfsins við Reykjavíkurborg.

Eftir fjórtán ára stjórnarsetu, þar af ellefu ár sem formaður, tilkynnti Þröstur Ólafsson að hann hygðist stíga til hliðar. Þakkaði hann stjórn, starfsfólki og framkvæmdastjóra félagsins, Helga Gíslasyni, fyrir vel unnin störf. Helgi færði Þresti innilegar þakkir fyrir farsæla forustu og lærdómsríkt og gott samstarf. Óhætt er að fullyrða að vel hafi ræst úr högum félagsins í stjórnartíð Þrastar.

Sævar Hreiðarsson, skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, flutti erindi um eiginleika íslensks trjáviðar, þéttleika og endingu sem byggir á meistaraverkefni hans við Landbúnaðarháskóla Íslands.

skrvk-rstur

Þröstur Ólafsson, fráfarandi formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur (Mynd: EG).