Nýr samningur Skógræktarfélags Íslands við Arion banka |
Föstudagur, 20. maí 2011 10:53 |
Skógræktarfélag Íslands hefur nú gert samstarfssamning við Arion banka um verkefnið Opinn skóg og útgáfu og kynningu á skógræktarsvæðum á Íslandi. Samninginn undirrituðu Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka fimmtudaginn 19. maí. Markmið samningsins er styrkja skógræktarstarf á Íslandi og miðla og kynna almenningi alhliða upplýsingar um tré og skóg. Nú þegar hafa ellefu svæði verið opnuð undir hatti Opinna skóga og það tólfta verður opnað í sumar að Fossá í Hvalfirði. Með samkomulaginu verður tryggð endurnýjun og viðhald eldri svæða Opinna skóga og unnið að því að opna ný svæði og gera þau að fyrirmyndar útivistar- og áningarstöðum. Auk þess mun Arion banki styðja ýmis konar fræðslustarf Skógræktarfélagsins. Meðal þeirra hluta sem verður unnið að í Opnum skógum er uppbygging fyrirmyndar útivistaraðstöðu, svo sem skógarstíga, bekkja, merkinga og leiðbeininga, bílastæða o.fl. Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arion banka og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, takast í hendur að lokinni undirskrift.
|