Skip to main content

Ráðstefna til heiðurs Alexander Robertson

Með 20. september, 2010febrúar 13th, 2019Fundir og ráðstefnur

Laugardaginn 18. september var haldin ráðstefna til heiðurs skógfræðingnum og Íslandsvininum Alexander „Sandy“ Robertson, er bar heitið Þytur í laufi – Skógar og skjól í Esjuhlíðum. Að ráðstefnunni stóðu Skógræktarfélög Íslands, Reykjavíkur og Kjalarness, Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá, Landbúnaðarháskóli Íslands og Raunvísindadeild Háskóla Íslands.

Ráðstefnustjóri var Símon Þorleifsson, en erindi fluttu Einar Gunnarsson, skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Íslands, um Esjuskóga, Haraldur Ólafsson, prófessor í veðurfræði við Háskóla Íslands, um Esjuvinda, Þorbergur Hjalti Jónsson, skógfræðingur á Mógilsá, um storma og stöðug tré og Alexander Robertson sjálfur, um að lesa í vind og skóga. Aðalsteinn Sigurgeirsson, skógerfðafræðingur á Mógilsá, sá svo um samantekt og umræður.

Auk erindis Sandys var sýnikennsla í áhrifum vinda, með notkun þurríss sem staðgengli vinds og vakti sú nálgun bæði mikla athygli og skemmtun.  Sérstaklega var áhugavert að sjá strauma um líkan af Esju, sem Sandy hefur skorið út.

Eftir umræður færði Bjarni Diðrik Sigurðsson Sandy þakkir fyrir hönd þeirra er stóðu að ráðstefnunni, auk þess sem Aðalsteinn Sigurgeirsson sæmdi Sandy gullmerki Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Í lok ráðstefnunnar var svo farið í skoðunarferð um Esjuhlíðar.

sandyconf-1

Alexander „Sandy“ Robertson (t.v.) við grunnlíkan sem nota má til að prófa mismunandi staðsetningar trjáa, skjólbelta og annarra mannvirkja (Mynd: RF).

sandyconf-2

Líkan af Esju prófað – áhrif norðanáttar (Mynd: RF).