Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Meistaravörn: Áhrif nýskógræktar á jarðveg, kolefnisforða og líffræðilega fjölbreytni á Fljótsdalshéraði

Með Fréttir

Julia C. Bos ver meistararitgerð sína í náttúru- og umhverfisfræði við deild Náttúru og skógar í Landbúnaðarháskóla Íslands sem nefnist „Effects of afforestation on soil properties, ecosystem C stocks and biodiversity in East Iceland” á ensku („Áhrif nýskógræktar á jarðveg, kolefnisforða og líffræðilega fjölbreytni á Fljótsdalshéraði“).

Leiðbeinendur eru próf. Bjarni Diðrik Sigurðsson og próf. Ólafur Arnalds við Landbúnaðarháskóla Íslands. Prófdómari er dr. Guðmundur Halldórsson, sérfræðingur hjá Landgræðslunni.

Vörnin fer fram þriðjudaginn 23. mars 2021 kl. 13:00 og verður streymt í gegnum Teams fjarfundabúnað. Öllum áhugasömum er velkomið að fylgjast með henni þannig.

Sjá nánar: http://www.lbhi.is/meistaravorn_julia_bos_i_natturu_og_umhverfisfraedi

Fræðsla um vetrarklippingar trjáa og runna

Með Fréttir

Sunnudagurinn 21. mars er alþjóðlegur dagur skóga hjá Sameinuðu þjóðunum. Af því tilefni bjóða Skógræktarfélag Íslands og Grasagarður Reykjavíkur upp á fræðslu um vetrarklippingar trjáa og runna. Garðyrkjufræðingarnir Einar Örn Jónsson, Pálína Stefanía Sigurðardóttir og Svanhildur Björk Sigfúsdóttir fjalla um hvaða trjágróður á að snyrta á þessum árstíma, hvernig bera eigi sig að til að viðhalda heilbrigðum og fallegum runnum og trjám og ekki síst hvað á ekki að gera!

Fræðslan hefst við aðalinngang Grasagarðsins kl. 11, sunnudaginn 21. mars. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir en bent er á að þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra regluna í fræðslunni er grímuskylda.

Gleðileg jól!

Með Fréttir

Skógræktarfélag Íslands, landssamband skógræktarfélaganna, óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Við þökkum stuðninginn á liðnu ári og sjáumst hress í skóginum árið 2021!

Jólatrjáasölur skógræktarfélaganna síðustu daga fyrir jól

Með Fréttir

Þótt farið sé að styttast verulega í jólin má enn nálgast jólatré hjá nokkrum skógræktarfélögum:

Skógræktarfélag Árnesinga, á Snæfoksstöðum, til 23. desember, kl. 11-16. Sjá: https://www.facebook.com/snaefokstadir

Skógræktarfélag Eyfirðinga, í Kjarnaskógi, alla daga til jóla, kl. 10-18. Sjá: https://www.facebook.com/SkograektarfelagEyfirdinga

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar, í Hamrahlíð,  til 23. desember, kl. 12-18. Sjá einnig: https://www.facebook.com/SkogMos/

Skógræktarfélag Reykjavíkur, á Lækjartorgi til 23. desember, kl. 16-20. Sjá: http://heidmork.is/

 

Sjá einnig: https://www.skog.is/jolatrjaavefurinn/

Annað tölublað Skógræktarritsins 2020 er komið út

Með Fréttir

Að venju er að finna í ritinu áhugaverðar greina um hinar fjölbreyttu hliðar skógræktar. Að þessu sinni má meðal annars finna greinar um Tré ársins 2020, útikennslu, áhrif furulúsar á lifun og vöxt skógarfuru á Íslandi, tálgun, blandskógrækt, stofnun Heiðmerkur, skógartölur ársins 2019 og útbreiðslu og áhrif ertuyglu á ungskóga.

Kápu ritsins prýðir myndin „Alien Hourgarden“ eftir Kristinn Má Pálmason.

Skógræktarritið (áður Ársrit Skógræktarfélags Íslands) er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi og aðalvettvangur skrifa íslenskra skógfræðinga og annarra sem áhuga hafa á hinum ýmsu hliðum skógræktar. Efni ritsins er því mjög fjölbreytt og víðtækt.

Hægt er að gerast áskrifandi að ritinu – sjá nánar: https://www.skog.is/skograektarritid/

Skrifstofa Skógræktarfélags Íslands – opnunartímar

Með Fréttir

Starfsfólk Skógræktarfélags Íslands mun nú á næstunni vinna meira heima, í ljósi tilmæla sóttvarnalæknis. Því geta komið tímabil þar sem enginn er við á skrifstofu félagsins á uppgefnum opnunartíma (9-16). Því er ráðlagt að hringja á undan sér (s. 551-8150) ef fólk á erindi á skrifstofuna. Hægt er að hafa samband við starfsfólk með tölvupósti eða síma – upplýsingar um símanúmer og netföng má finna hér á heimasíðunni – https://www.skog.is/starfsfolk-2/

 

Skógræktarfélag Siglufjarðar 80 ára

Með Fréttir

Skógræktarfélag Siglufjarðar fagnaði 80 ára afmæli sínu þann 22. september, en félagið var stofnað þann 22. september 1940. Upphaflega fékk félagið úthlutað landi austanvert í Hólsdalnum sunnan Hóls og hóf þar gróðursetningu, en það reyndist of erfitt land og flutti félagið sig því yfir í Skarðdal, sem hefur verið aðal skógræktarsvæði félagsins síðan og vex þar nú nyrsti gróðursetti skógur landsins.

Skógræktarfélag Íslands óskar Skógræktarfélagi Siglufjarðar til hamingju með afmælið!

Stutt yfirlit yfir starf félagsins í tilefni afmælisins má lesa á vef Trölla – www.trolli.is.

 

Sjálfboðaliðadagur hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar

Með Fréttir

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar verður með sjálfboðaliðadag sunnudaginn 20. september. Gróðursett verður í Hamranesið milli kl. 11 og 13. Mæting á móts við Hamranesflugvöll við Hvaleyrarvatnsveg. Þar í hlíðum jarðvegstippsins verður gróðursett eins og í fyrra.

Plöntur og verkfæri á staðnum. Allir fá heita súpu að gróðursetningu lokinni.

Sendið póst á netfangið skoghf@simnet.is til að fá nánari upplýsingar eða hringið í síma 555-6455 eða 894-1268.

Allir velkomnir!

Landssöfnun á birkifræi

Með Fréttir

Skógræktin og Landgræðslan hafa tekið höndum saman um átak í söfnun birkifræs nú í haust og verður fræinu sem safnast dreift á völdum svæðum í öllum landshlutum. Eru landsmenn hvattir til að taka þátt og hjálpa til við að breiða út birkiskóga landsins.

Frá miðjum september verður hægt er að fá söfnunarbox á starfsstöðvum Skógræktarinnar, Landgræðslunnar, Terru og í verslunum Bónus. Söfnunartunnur eru komnar í verslanir Bónus.

Nánar má lesa um söfnunina og hvernig á að safna fræjum á vefsíðunni birkiskogur.is.

Aðalfundur Skógræktarfélags Akraness 2020

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Akraness verður haldinn í Frístundamiðstöðinni Garðavöllum á Akranesi mánudaginn 28. september kl. 20.  Á dagskrá fundarins eru hefðbundin aðalfundarstörf (árskýrssla, reikningar og kosningar), auk þess sem rætt verður um starf félagsins.

Í ljósi aðstæðna vegna Covid verður ekki boðið upp á veitingar að þessu sinni.

Eitt sæti er laust í stjórn félagsins og eru félagar, sem áhuga hafa á að taka þátt í störfum félagsins, hvattir til að bjóða sig fram – með þátttöku næst árangur!