Skip to main content
Flokkur

Ýmislegt

Fuglavernd: Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar

Með Ýmislegt

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar verður dagana 27. – 30. janúar en gott er að hefja undirbúning talningar allt að viku áður með því að lokka fuglana að með fóðurgjöfum. Framkvæmd athugunarinnar er einföld. Það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í einn klukkutíma einhvern þessara daga, skrá hjá sér hvaða fuglar koma í garðinn og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir.

Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund en upplýsingar um garðfugla og fóðrun þeirra má m.a. finna á vefsíðu Fuglaverndar (www.fuglavernd.is ) og í Garðfuglabæklingnum sem fæst á skrifstofu félagsins. Að lokinni athugun skal skrá niðurstöðurnar á þar til gert eyðublað og senda til Fuglaverndar í tölvupósti eða í pósti (Fuglavernd, Skúlatúni 6, 105 Reykjavík).

Til gamans má segja frá því að 18 tegundir sáust í görðum í fyrra sem er met en 261 skiluðu inn niðurstöðum – þrátt fyrir óhagstætt veður til garðfuglaskoðunar. Samtals voru 7287 fuglar í görðum, flestir starar eða 3294.

Fuglavernd vill minna kattareigendur á að halda köttum sínum sérstaklega inni í ljósaskiptunum þegar fuglarnir eru auðveld bráð.

fuglavernd-gardfuglar

(Mynd: Örn Óskarsson)

 

Landvernd: Hvað ógnar lífríki Þingvallavatns og náttúru þjóðgarðsins? Frestun til 24. janúar

Með Ýmislegt

Landvernd efnir til opins fundar um stjórnun þjóðgarðsins á Þingvöllum og álag á vistkerfi Þingvallavatns. Fundurinn verður haldinn í Norræna húsinu, þriðjudaginn 24. janúar kl. 12-13:30.

Sigrún Helgadóttir náttúrufræðingur flytur fyrirlestur undir heitinu ,,Þingvellir, alvöru þjóðgarður?“ og Hilmar J. Malmquist, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs, flytur fyrirlesturinn ,,Þingvallavatn: Dýrmætt vistkerfi undir álagi“.

Í fyrirlestrunum verður leitað svara við ýmsum mikilvægum spurningum, m.a.: Hvernig þjóðgarður er á Þingvöllum? Er rétt að hann starfi undir stjórn þingmanna? Hvernig er staðið að verndun lífríkis og menningarminja? Hvaða áhrif hefur aukin umferð á tærleika og lífríki Þingvallavatns? En bústaðabyggðin? Hvað með Nesjavallavirkjun? Er þessi ,,helgistaður þjóðarinnar“ undir of miklu álagi?

Fundarstjóri er Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar. Viðburðurinn er haldinn í samvinnu við Norræna húsið. Allir velkomnir.

Sjá nánar á heimasíðu Landverndar (hér).

Fræðsluferð til Þýskalands

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands hefur um áraraðir staðið fyrir fræðsluferðum á erlenda grund og er ferð ársins 2012 nú í undirbúningi.  Stefnan er tekin til upprunalands skógræktar sem slíkrar, Þýskalands, og er fyrirhugað að fara þangað næsta haust, í september.

Fyrirhugað er að fljúga til München og fara þaðan í um viku ferð um Bæjaraland (Bayern) til að skoða skóga og vinnslu afurða skóga, auk þess sem ætlunin er að hitta þarlent skógarfólk. Einnig verður, eins og ávallt, hugað að almennri skoðun á náttúru og sögustöðum svæðisins og má þar sérstaklega telja til kastala, en af þeim er töluvert í Bæjaralandi. Á stefnuskránni er að skoða að minnsta kosti einn slíkan.

Hægt er að skrá sig strax á áhugalista fyrir ferðina til að fá nánari upplýsingar um ferðina um leið og þær liggja fyrir. Hafið samband við Skógræktarfélag Íslands, skog (hjá) skog.is eða s. 551-8150.

Í þessa ferð okkar, líkt og aðrar, gildir að fyrstur kemur, fyrstur fær.

Gleðilegt nýtt ár!

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands óskar landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs!
Þökkum skógræktarfélögum um land allt – og öðrum vinum, samstarfs- og styrktaraðilum – fyrir ánægjulega samvinnu á liðnu ári.

Gleðileg jól!

Með Ýmislegt
Skógræktarfélag Íslands, landssamband skógræktarfélaganna, óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla.
Sérstakar kveðjur fá aðildarfélög og félagsmenn þeirra, einnig aðrir velunnarar, samstarfs- og styrktaraðilar.



gledilegjol

Viðurkenning fyrir skógartengt útinám

Með Ýmislegt

Í dag kl. 14:30 mun Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra  afhenda  Ártúnsskóla í  Reykjavík viðurkenningu fyrir ötult starf í skógartengdu útinámi í tilefni af alþjóðaári skóga. Af sama tilefni mun ráðherra  afhenda skólanum fyrsta eintak myndarinnar Skógurinn og við (Of Forests and Men) sem í framhaldinu mun verða send til allra grunnskóla í landinu ásamt leiðbeiningum um skógartengd verkefni.

Börn í 1. og 2. bekk skólans taka þátt í athöfninni en þau sóttu jólatré skólans í grenndarskóg sinn og gróðursettu rauðgrenitré í staðinn, sem sprottin eru af fræjum sem komu úr könglum Oslóartrésins á Austurvelli 2007 og voru ræktuð í Ræktunarstöð  Umhverfissvið Reykjavíkurborgar  í Fossvoginum.

Börnin munu færa gestum gjafir skógarins af þessu tilefni.

Umsókn í Minningarsjóð Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson

Með Ýmislegt

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Til úthlutunar verða samtals 4,8 milljónir króna. Styrkirnir eru lausir til umsóknar frá og með 1. desember 2011 og umsóknum skal skilað eigi síðar en 10. janúar 2012.

Umsóknareyðublað má finna hér. Umsókn ásamt fylgigögnum skal skila í einu pappírseintaki og á tölvutæku formi (á geisladiski sem rtf, pdf eða word skjal). Ófullgerðum umsóknum verður vísað frá.

Umsóknum skal skila til:
Landgræðslusjóður
Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson
Skúlatúni 6
105 Reykjavík

Dagur íslenskrar náttúru í Reykjavík

Með Ýmislegt

Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar stendur fyrir lifandi dagskrá í hádeginu í Café Flóru  á Degi íslenskrar náttúru föstudaginn 16. september. Flutt verða örerindi fyrir gesti Café Flóru og gangandi í Grasagarði Reykjavíkur þar sem meðal annars verður fjallað um strandlengjuna, eldgos, sandstorma, rétt náttúrunnar, jóga og hagnýtar upplýsingar um hvernig nýta megi það sem til fellur í garðinum.

Auður Óskarsdóttir garðyrkjufræðingur mun til dæmis sýna gestum hvernig nýta megi afklipptar trjágreinar, Anna Rósa Böðvarsdóttir og Kristín Lóa Ólafsdóttir heilbrigðisfulltrúar munu kynna í örstuttu máli hreina strandlengju og mengandi sandstorma, Gunnar Hersveinn heimspekingur mun spyrja hvort náttúran njóti náttúruréttinda og Anna Ingólfsdóttir jógakennari mun bjóða gestum út fyrir garðskálann til æfinga. Umhverfis- og samgöngusvið mun bjóða gestum upp á heilsudrykk staðarins á meðan hann endist.

Unga fólkið fær einnig sýna skemmtun og fróðleik á vegum Umhverfis- og samgöngusviðs því 4. bekk grunnskólans verður boðið upp á náttúr-ratleik á vegum Grasagarðs Reykjavíkur frá kl. 9-13. Fjöldi hópa er takmarkaður og þurfa kennarar að áætla klukkustundarviðveru. Umsjón með þessum lið hafa Hildur Arna Gunnarsdóttir fræðslustjóri og Helena Óladóttir hjá Náttúruskóla Reykjavíkur.

Allir velkomnir!