MAROKKÓ 2021

Skógræktarfélag Íslands hefur um áratugaskeið staðið fyrir fræðsluferðum á erlenda grundu til að fræðast um tré, skóga, náttúru og menningu mismunandi landa. Árið 2020 var röðin komin að Marokkó, en ákveðið var að fresta ferðinni til 2021, vegna óvissuástands í kringum COVID-19.

Marokkó er spennandi land að heimsækja því það er fjölbreytt og margt að gerast þegar kemur að trjá- og skógrækt, þótt það sé minna þekkt en matarhefðir eða byggingalist landsins.

Ferðin verður farin haustið 2021 og farið víða um landið, frá Rabat þar sem „Tyrkirnir“ skildu eftir marga sem þeir rændu frá Íslandi, til Ifrane í Mið-Atlasfjöllunum þar sem hlúð er vel að sedrusskógi, svo suður á jaðar Sahara þar sem pálmalundir mynda einstakt og sérlega viðkvæmt vistkerfi og loks að strönd Atlantshafsins þar sem er að finna eina vaxtarstað argan-trésins í heiminum en úr því er unnin hin verðmæta argan olía. Þessi þrjú vistkerfi, sem einkenna suðurhluta Marokkó, eru okkur framandi og skógfræðingar eða aðrir fræðimenn munu gefa okkur innsýn í viðhald þeirra, erfiðleika, árangursríkar herferðir, ógnir og ávinninga – að ógleymdum samfélagslegum áhrifum.

Einnig verða að sjálfsögðu skoðaðir ýmsir áhugaverðir menningarstaðir – komið við í Marrakech, sjávarborginni Essaouira frá tíma Portúgala, verslunarstöðunum Erfoud og Ait Benhaddou.

Fararstjóri verður Dominique Plédel Jónsson og hópstjóri fyrir hönd Skógræktarfélags Íslands verður Brynjólfur Jónsson.