Skip to main content

Aðalfundur 2010

Með 30. ágúst, 2010september 20th, 2019Aðalfundir

75. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn á Selfossi dagana 27.-29. ágúst 2010.
Skógræktarfélag Árnesinga var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Fundinn sóttu á annað hundrað fulltrúar skógræktarfélaganna, alls staðar af landinu, og tókst fundurinn vel.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgun með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra, Kjartan Ólafssonar, formanns Skógræktarfélags Árnesinga, Johan C. Löken, formanns Skógræktarfélags Noregs, Elfu Daggar Þórðardóttur, formanns framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar og Jóns Loftssonar skógræktarstjóra.

Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi. Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Fyrst var farið í Tryggvagarð, þar sem afhjúpaður var bautasteinn til minningar um Tryggva Gunnarsson og til að marka garðinn. Því næst var haldið að Snæfoksstöðum í Grímsnesi,  skógræktarsvæði Skógræktarfélags Árnesinga. Þar var farið í skoðunarferð um skóginn, sem lauk með afhjúpun þriggja bautasteina, með nöfnum deilda Skógræktarfélags Árnesinga, formönnum og stjórnarmönnum og starfsmönnum félagsins. Einnig var Óskar Þór Sigurðsson, fyrrverandi formaður félagsins, gerður að heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands við þetta tækifæri. Vettvangsferðinni lauk svo með skógarveislu í skjólinu í skóginum.

Á laugardagsmorgun hófst dagskrá á fræðsluerindum. Ólafur Sturla Njálsson frá Gróðrarstöðinni Nátthaga fjallaði um evrópulerki, Ragnar Sigurbjörnsson, prófessor og forstöðumaður Jarðskjálftamiðstöðvar Háskóla Íslands á Selfossi sagði frá stofnunni og jarðskjálftum á Suðurlandi, Jón Kr. Arnarson frá Landbúnaðarháskóla Íslands fjallaði um trjárækt við erfið skilyrði, Egill R. Sigurgeirsson læknir sagði frá býflugum og hunangsframleiðslu og Eiríkur Benjamínsson  fjallaði um sitkagreni.

Erindi Ólafs Sturlu Njálssonar (pdf)
Erindi Ragnars Sigurbjörnssonar (pdf)
Erindi Jóns Kr. Arnarsonar (pdf)
Erindi Egils R. Sigurgeirssonar (pdf)
Erindi Eiríks Benjamínssonar (pdf)

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð í Hellisskóg, skógræktarsvæði Skógræktarfélags Selfoss, en það er deild í Skógræktarfélagi Árnesinga. Nutu fundargestir skógarins í sól og blíðu veðri, undir leiðsögn Bjarna Harðarsonar.

Um kvöldið var svo boðið til hátíðarkvöldverðar og kvöldvöku í boði Skógræktarfélags Árnesinga, undir styrkri stjórn veislustjórans Guðna Ágústssonar. Meðal annars færði Skógræktarfélag Íslands þeim skógræktarfélögum sem áttu tugaafmæli á árinu árnaðaróskir félagsins, en það voru Skógræktar- og landverndarfélagið undir Jökli (20 ára), Skógræktarfélag Strandasýslu (60 ára), gestgjafar fundarins, Skógræktarfélag Árnesinga (70 ára) og Skógræktarfélag Eyfirðinga (80 ára). Auk þess á Skógræktarfélag Vestmannaeyja 10 ára afmæli, en fulltrúi þess félags átti því miður ekki tök á að koma á kvöldvökuna.

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, tillagna og kosning stjórnar, en fundi lauk um hádegi.

Umfjöllun um fundinn í Skógræktarritinu 2. tbl. 2010 (pdf)

Fundargögn:

Dagskrá (pdf)

Starfsskýrsla 2009-2010 (pdf)

Skýrsla Landgræðslusjóðs (pdf)

Ályktun fundarins (pdf)