Skip to main content

Sjálfboðaliðaverkefni - EVS

Skógræktarfélag Íslands hefur í gegnum tíðina unnið með ýmsum sjálfboðaliðum, bæði innlendum og erlendum.

Frá árinu 2015 hefur Skógræktarfélag Íslands tekið á móti fjölda erlendra sjálfboðaliða sem hingað hafa komið fyrir tilstilli sjálfboðaliðaverkefna Erasmus+ áætlunarinnar, fyrst í gegnum European Voluntary Service en frá og með 2020 í gegnum European Solidarity Corps. Árlega koma hingað fimm sjálfboðaliðar frá jafnmörgum Evrópulöndum sem dvelja hér í fimm mánuði. Þessir sjálfboðaliðar hafa einkum unnið að gróðursetningu á Úlfljótsvatni og umhirðu eldri reita víða um land.

Skógræktarfélag Íslands hefur fengið gæðavottun (e. Quality Label) vegna sjálfboðaliðaverkefna European Solidarity Corps áætlunar (ESC) Evrópusambandsins. Gæðavottunin staðfestir að félagið hafi vilja og getu til að taka á móti sjálfboðaliðum og búa þeim aðstæður sem uppfylla gæðaviðmið ESC-áætlunarinnar og séu í samræmi við markmið hennar og gildi. Vottunin er jafnframt nauðsynleg til að félagið geti sótt um fjármagn til sjálfboðaliðaverkefna á vegum áætlunarinnar.

Einnig hefur Skógræktarfélag Íslands notið liðstyrks sjálfboðaliða á vegum samtakanna Working Abroad. Fyrir tilstilli samtakanna hefur Skógræktarfélag Íslands fengið 2-3 hópa sjálfboðaliða á hverju sumri. Að jafnaði eru fimm manns í hverjum hóp og dvelja þeir í tvær vikur á Úlfljótsvatni þar sem þeir sinna einkum gróðursetningum og áburðargjöf. Þá hefur félagið öðru hverju notið liðstyrks sjálfboðaliða á vegum innlendu samtakanna Seeds og Veraldarvina.

Frekari upplýsingar um þátttöku í sjálfboðaliðaverkefninu má finna hér (á ensku).