Skip to main content
Fréttir

Hvatningarverðlaun skógræktar: taktu þátt í kosningu

Með Fréttir

Hvatningarverðlaun skógræktar verða veitt í fyrsta sinn nú í ár. Stefnt er að að því að þau verði veitt árlega til einstaklinga, hópa, fyrirtækja, félaga eða stofnana sem unnið hafa óeigingjarnt starf í þágu skógræktar á Íslandi.

Kallað var eftir tilnefningum fyrir Hvatningaverðlaun skógræktar árið 2024 meðal almennings og bárust hátt á fjórða tug tilnefninga. Dómnefnd valdi úr þrjá aðila til almennrar kosningar. Verðlaunin verða svo veitt á Fagráðstefnu skógræktar 2024, sem haldin verður á Akureyri dagana 20.-21. mars næst komandi.

Vertu með í að velja verðlaunahafa og taktu þátt í kosningu um Hvatningaverðlaunin! Hægt er að greiða atkvæði til og með 5. mars – sjá: https://www.skog.is/hvatningarverdlaun-skograektar-kosning

Aðilar í vali:

  • Sigurður Arnarson. Sigurður hefur verið öflugur í skrifum á fræðandi og áhugaverðum greinum um trjátegundir, skóga og skógrækt og stuðlað þannig að aukinni þekkingu fyrir bæði almenning og fólk innan skógræktargeirans. Auk þess hefur hann verið virkur í umræðu um skógartengd málefni.
  • Steinar Björgvinsson og Árni Þórólfsson. Steinar og Árni hafa, með starfi fyrir gróðrarstöðina Þöll og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, stuðlað að aukinni fjölbreytni trjátegunda almennt hérlendis, uppbyggingu í útivistarskógum, veitt fræðslu til almennings og nema á fagsviði skógræktar og staðið fyrir áhugaverðum viðburðum fyrir fólk á öllum aldri.
  • Waldorfskólinn Lækjarbotnum. Waldorfskólinn hefur frá upphafi starfsemi stundað gróðursetningu trjáplantna við skólann. Umhverfisvitund, sjálfbærni og virðing fyrir náttúrunni er samofin námskrá skólans og læra nemendur skólans að hlúa að skóginum ræktaður hefur verið upp við skólann. Með því er verið að rækta upp ræktunarfólk framtíðarinnar.

 

 

Félagsskírteini skógræktarfélaganna: Skógræktin Ölur á Sólheimum bætist við afsláttaraðila

Með Fréttir

Það eru þó nokkur fyrirtæki sem veita félagsmönnum skógræktarfélaga afslátt gegn framvísun félagsskírteinis. Nú hefur einn aðili í viðbót bæst í hópinn – Skógræktin Ölur á Sólheimum – en þau veita 15% afslátt (gildir ekki með öðrum tilboðum).

Upplýsingar um hvaða fyrirtæki veita afslátt (og hversu mikinn) má finna hér: https://www.skog.is/skraning-i-felog/. Þar má einnig skrá sig í skógræktarfélag.

Nýr vefur fyrir Úlfljótsvatn

Með Fréttir

Skógræktarfélag Íslands hefur sett í loftið nýjan vef fyrir landið og húsið við Úlfljótsvatn, en þar stundar félagið ýmis konar skógrækt í samstarfi við meðeigendur að Úlfljótsvatnsjörðinni – Bandalag íslenskra skáta og Skátasamband Reykjavíkur.

Á vefnum er fjallað um skógræktarstarfsemi félagsins, sjálfboðaliðaverkefni og vetrargistingu, auk nýrrar vinnustofudvalar (residency) að vetri fyrir rithöfunda, hlaðvarps-/kvikmyndagerðafólk og aðra listamenn. Vefnum er fyrst og fremst beint að alþjóðlegum lesendum – mögulegum sumarsjálfboðaliðum, vetrargestur og listafólki – til að útskýra hvað Skógræktarfélag Íslands gerir og er, en fróðleikurinn nýtist samt bæði Íslendingum og erlendum gestum.

Framtíðin er björt á Úlfljótsvatni!

Vefurinn: https://www.ulfljotsvatnlakehouse.com/

Óskað eftir fyrirlestrum og veggspjöldum á Fagráðstefnu skógræktar 2024

Með Fréttir

Fagráðstefna skógræktar 2024 verður haldin í Hofi á Akureyri dagana 20.-21. mars. Óskað er eftir fyrirlestrum fyrir seinni dag ráðstefnunnar ásamt veggspjöldum sem hanga munu uppi meðan ráðstefnan stendur.

Þema ráðstefnunnar að þessu sinni er Skógarauðlindin  innviðir og skipulag. Fagráðstefna skógræktar er haldin í samstarfi Lands og skógar, Landbúnaðarháskóla ÍslandsSkógræktarfélags ÍslandsSkógfræðingafélags Íslands og Bændasamtaka Íslands.

Fyrirlestrar og umræður um þema mynda dagskrá fyrri dags ráðstefnunnar en seinni daginn er rými fyrir hvers kyns málefni sem tengjast skógum og skógrækt, rannsóknum, skógtækni og skyldum efnum. Sækja má um pláss í dagskránni fyrir fyrirlestra á sérstöku eyðublaði og sömuleiðis ef fólk vill leggja til veggspjald á veggspjaldakynningu ráðstefnunnar.

Frestur til að skila inn tillögum að erindum er 31. janúar 2024. Öllum umsækjendum verður svarað í fyrstu viku febrúarmánaðar.

Frestur til að skila inn tilllögum að veggspjöldum er 10. mars 2024.

Skráning á ráðstefnuna hefst fyrri hluta febrúarmánaðar.

Nánari upplýsingar á: https://island.is/s/land-og-skogur/frett/oskad-eftir-fyrirlestrum-og-veggspjoeldum-a-fagradstefnu-skograektar-2024

 

Félagsskírteini 2024-2025

Með Fréttir

Félagsskírteini skógræktarfélaganna er nú almennt orðið rafrænt. Skírteinið er virkt svo lengi sem félagsmaður er skráður í skógræktarfélag, en er uppfært árlega. Búið er að uppfæra það fyrir árið í ár (þ.e. fyrir gildistíma 2024-2025). 

Félagar með virkt félagsskírteini veskinu í símanum þurfa ekki að hala því niður aftur. Skírteinið á að uppfærast sjálfkrafa í Android-símum þegar það er opnað í veskinu, en einnig má ýta á “hringhnapp” neðst til hægri til að uppfæra skírteinið. Iphone notendur þurfa að fara í veskið og á „bakhlið“ skírteinisins (punktarnir þrír í hægra horninu uppi), er smellt á „Pass details“ og strokið svo niður skjáinn og á skírteinið þá að uppfærast.  

Félagsmenn sem eru ekki með rafrænt skírteini nú þegar geta haft samband til að athuga hvort virkt netfang sé skráð hjá okkur og fengið tengil til að nálgast skírteinið sendan. Hafið samband með tölvupósti á rf@skog.is eða hringið í síma 551-8150. 

Hvatningarverðlaun skógræktar: Kallað eftir tilnefningum

Með Fréttir

Hvatningarverðlaun skógræktar verða veitt í fyrsta sinn á alþjóðlegum degi skóga, þann 21. mars næst komandi. Fyrirhugað er að veita þau árlega til einstaklinga, hópa, fyrirtækja, félaga eða stofnana sem unnið hafa óeigingjarnt starf í þágu skógræktar á Íslandi. 

Að verðlaununum standa Skógræktarfélag Íslands, Land og skógur og Bændasamtök Íslands. 

Tilnefningafrestur er til 14. febrúar. Tilnefningu má fylla út á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands: https://www.skog.is/hvatningarverdlaun-skograektar/ 

 Ef þú þekkir einhvern eða einhverja sem eru að gera virkilega góða hluti innan skógræktar og eiga hvatningu skilið – endilega senda inn tilnefningu! 

 

                

Grasagarður Reykjavíkur: Leikið með laufum: Listasmiðja fyrir fjölskyldur

Með Fréttir

Grasagarður Reykjavíkur býður til listasmiðju í garðskála Grasagarðsins laugardaginn 20. janúar kl. 10:30-13:00.

Í þessari listasmiðju fyrir fjölskyldur verður unnið með laufblöð plantna. Sérstök áhersla er lögð á að rannsaka laufblöð með mismunandi miðlum í þrykki, teikningu og málun. Notuð verða ýmiskonar fjölbreytt efni sem hægt er að nýta á skapandi hátt.

Listasmiðjan veitir þátttakendum tækifæri til að virkja eign hugmyndir í listsköpun á sama tíma og rætt verður um inntak sýningarinnar „Þessi djúpi græni blaðlitur: Minningar í lit“ sem nú stendur yfir í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur.

Listasmiðjan er í umsjón Ásthildar Jónsdóttur.

Þátttaka er ókeypis og öll velkomin!