Skip to main content

Aðalfundur 2011

Með 5. september, 2011september 20th, 2019Aðalfundir

76. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Fjölbrautarskóla Snæfellinga á Grundarfirði dagana 2.-4. september 2011. Skógræktarfélag Eyrarsveitar var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Á annað hundrað fulltrúar sóttu fundinn, alls staðar af landinu, og tókst fundurinn vel.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgun með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Andrésar Inga Jónssonar, fulltrúa umhverfisráðherra, Gunnars Njálssonar, formanns Skógræktarfélags Eyrarsveitar, Björns Steinars Pálmasonar, bæjarstjóra Grundarfjarðar og Jóns Loftssonar skógræktarstjóra.

Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi. Að hádegisverði loknum var haldið í vettvangsferð. Ekið var áleiðis að Hallbjarnareyri og svo heimsóttur Eiðisskógur, einn skóga Skógræktarfélags Eyrarsveitar. Frá honum var haldið til Ólafsvíkur, þar sem gengið var um skógræktarsvæði ofan bæjarins. Endaði heimsóknin á því að undirskrifaður var samningur milli Skógræktarfélags Ólafsvíkur og Snæfellsbæjar um Landgræðsluskóg út frá núverandi skógi. Einnig var undirritaður samstarfssamningur milli Skógræktarfélags Ólafsvíkur og Grunnskóla Snæfellsbæjar um notkun á gömlu fjárhúsi á svæðinu til fræðslu. Að því loknu var ekið til Hellissands, þar sem  Opinn skógur í Tröð var heimsóttur, en þar bauð Skógræktar- og landverndarfélagið undir Jökli upp á hressingu og gönguferð um svæðið. Deginum lauk svo með nefndarstörfum að loknum kvöldmat.

Á laugardagsmorgun hófst dagskrá á fræðsluerindum. Björg Ágústsdóttir, frá Ráðgjafarfyrirtækinu Alta, sagði frá hugmyndum um svæðisgarð á Snæfellsnesi, Guðbjörg Gunnarsdóttir, þjóðgarðsvörður í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, sagði frá þjóðgarðinum, Sigurborg K. Hannesdóttir flutti hugvekju um manneskjuna í skóginum og Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, fjallaði um áhrif eldgosa og ösku á gróður.

Erindi Guðbjargar Gunnarsdóttur (pdf)
Erindi Hreins Óskarssonar (pdf)

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð í Brekkuskóg ofan Grundarfjarðar, en þar var ný aðkoma formlega tekin í notkun. Gengið var um skóginn og endað á hressingu í skógarlundi.

Um kvöldið var svo boðið til hátíðarkvöldverðar og kvöldvöku í boði Skógræktarfélags Eyrarsveitar, undir stjórn veislustjórans Gunnars Kristjánssonar. Voru fjórir félagar í Skógræktarfélagi Eyrarsveitar heiðraðir fyrir störf sín í þágu félagsins og skógræktar og voru það Pálína Gísladóttir, Vigdís Gunnarsdóttir og hjónin Arnór Páll Kristjánsson og Auður Jónasdóttir.

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikningar, tillagna og kosning stjórnar, en fundi lauk um hádegið.

Umfjöllun um fundinn í Skógræktarritinu 2. tbl. 2011 (pdf)

Fundargögn:

Dagskrá (pdf)

Starfsskýrsla 2010-2011 (pdf)

Skýrsla Landgræðslusjóðs (pdf)

Ályktanir fundar (pdf)