Skip to main content

Aðalfundur 2018

Með 3. september, 2018nóvember 26th, 2020Aðalfundir

Skógræktarfélag Íslands hélt 83. aðalfund sinn á Hellu á Rangárvöllum dagana 31. ágúst til 2. september. Var Skógræktarfélag Rangæinga gestgjafar fundarins að þessu sinni og var vel mætt á hann, en um 160 fulltrúar, víðs vegar af landinu, sóttu fundinn.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgni með ávörpum Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands og Jóns Ragnars Örlygssonar, formanns Skógræktarfélags Rangæinga. Sigríður Heiðmundsdóttir kynnti því næst Skógræktarfélag Rangæinga fyrir fundargestum. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra fluttu því næst ávörp.

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi – kynning á skýrslu og reikningum Skógræktarfélags Íslands, skýrsla Landgræðslusjóðs, fyrirspurnir, kynning tillagna að ályktunum og skipun í nefndir. Einnig kynnti Hrönn Guðmundsdóttir stuttlega Hekluskóga, en vettvangsferð dagsins lá meðal annars um slóðir Hekluskóga.

Eftir hádegi var haldið í vettvangsferð, um uppsveitir Rangárvalla. Byrjað var á að halda að Hellum í Landssveit þar sem skoðaður var Hellnahellir, lengsti manngerði hellir á Íslandi. Þaðan var ekið áleiðis að Þjófafossi, þar sem skoðuð voru ræktunarsvæði Hekluskóga. Þaðan var ekið fram hjá Næfurholti og endað í Bolholtsskógi, einu ræktunarsvæði Skógræktarfélags Rangæinga, þar sem boðið var upp á gönguferð og fræðslu um skóginn og hressingu (súpu og með því).

Laugardagur hófst á nefndastörfum en að þeim loknum tóku við fræðsluerindi. Björn Steinar Blumenstein vöruhönnuður fjallaði um verkefnið Skógarnytjar, er lýtur að nýtingu íslensks viðar til framleiðslu ýmiskonar varnings, Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, kynnti sveitarfélagið í máli og myndum, Árni Bragason landgræðslustjóri hélt erindi er hét Landgræðslan, baráttan við sandinn, þar sem farið var yfir uppgræðslustarf á svæðinu, Margrét Grétarsdóttir, Skógræktarfélagi Rangæinga, fjallaði um sögu heimabæjar síns, Klofa í Landsveit, með tilvísun til uppgræðslu og Bjarni Diðrik Sigurðsson fjallaði um skógrækt í samhengi við loftslagsmál, þá sérstaklega kolefnisbindingu með skógrækt.

Eftir hádegi var svo haldið í vettvangsferð. Byrjað var á að skoða tilraunareit með öspum við Gunnarsholt, sem er einn mest rannsakaði skógarreitur landsins, en þaðan var haldið að Heylæk í Fljótshlíð, þar sem Sigurður Haraldsson, eigandi Heylæks, hefur, ásamt fjölskyldu sinni, ræktað upp mikinn og fjölbreyttan skóg. Auk þess að skoða skóginn var boðið upp á hressingu. Þaðan var svo ekið niður á Markarfljótsaura þar sem mikill skógur er að vaxa upp, þökk sé starfi Skógræktarfélags Rangæinga.

Dagskrá laugardags lauk svo með hátíðarkvöldverði og hátíðardagskrá í umsjón Skógræktarfélags Rangæinga. Fjórir félagar í Skógræktarfélagi Rangæinga voru heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar, þau Klara Haraldsdóttir, Sigurvina Samúelsdóttir og hjónin Sigurbjörg Elimarsdóttir og Sveinn Sigurjónsson.

Á sunnudeginum voru svo hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga og ályktana, en einnig var samþykkt ný stefnumótun fyrir félagið. Að venju var kosið í stjórn. Guðbrandur Brynjúlfsson, Skógræktarfélagi Borgarfjarðar, gekk úr stjórn eftir 15 ára setu og kom í hans stað nýr í aðalstjórn Jens B. Baldursson, Skógræktarfélagi Akraness, en hann sat áður í varastjórn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Skógræktarfélagi Kópavogs, Valgerður Auðunsdóttir, Skógræktarfélagi Árnesinga og Margrét Grétarsdóttir, Skógræktarfélagi Rangæinga.

Samþykktar ályktanir aðalfundar 2018 (.pdf)

Stefnumótun Skógræktarfélags Íslands (.pdf)

Fundargögn

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2017-2018 (.pdf)

Ársreikningur 2017 – Kolviður (.pdf)

Ársreikningur 2017 – Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (.pdf)

Ársreikningur 2017 – Úlfljótsvatn sf (.pdf)

Ársreikningur 2017 – Yrkja (.pdf)

Starfsskýrsla og ársreikningur Landgræðslusjóðs (.pdf)

Þátttakendur á aðalfundi (.pdf)