Skip to main content

Andlát: Björn Jónsson

Með 5. febrúar, 2010febrúar 13th, 2019Ýmislegt

bjornjonsson1
Björn Jónsson (Mynd: www.mbl.is)

Björn Jónsson, fyrrverandi skólastjóri Hagaskóla, lést á líknardeild Landspítalans á Landakoti 3. febrúar. Björn var 77 ára að aldri, fæddur á Ytra-Skörðugili í Skagafirði þann 3. júlí 1932. Björn lætur eftir sig tvö uppkomin börn, en kona hans, Guðríður Sigríður Magnúsdóttir, lést 2005.

Björn var mikill áhugamaður um skógrækt og stundaði hana á jörðinni Sólheimum í Landbroti um áratugaskeið. Hann hélt til fjölda ára vinsæl og vel sótt námskeið um ræktun áhugamannsins á vegum Skógræktarfélags Íslands og fékk hann viðurkenningu félagsins fyrir framlag til skógræktar árið 2006. Auk þess fékk hann viðurkenningu umhverfisráðuneytisins fyrir störf að umhverfismálum og riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til uppeldismála, menningar og skógræktar.

Eftir Björn liggja fjöldi áhugaverðra greina í Skógræktarritinu – Ársriti Skógræktarfélags Íslands, meðal annars því nýjasta sem kom út núna fyrir jólin.

Skógræktarfélag Íslands sendir fjölskyldu og vinum Björns sínar innilegustu samúðarkveðjur, með þökk fyrir áratuga langt og gott samstarf.

bjornjonsson2
Björn að kenna á námskeiði Skógræktarfélags Íslands árið 2005 (Mynd: JFG).