Skip to main content

Athugasemd frá Skógræktarfélagi Íslands við ályktun Skógræktarfélags Reykjavíkur, vegna Teigsskógar

Með 20. október, 2014febrúar 13th, 2019Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum þann 15. október sl. ályktun er varðar samþykkt stjórnar Skógræktarfélags Íslands og skógræktarfélaga á Vestfjörðum um Teigsskóg. Því miður er í ályktun Skógræktarfélags Reykjavíkur hallað réttu máli. Ekki skal hér farið í efnislegar deilur við stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur um Teigsskóg en nauðsynlegt er að leiðrétta rangfærslur sem fram koma í ályktuninni.
Fullyrt er í ályktun Skógræktarfélags Reykjavíkur að undirtektir skógræktarmanna við framkominni tillögu á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands hafi verið dræmar. Hið rétta er að miklar umræður spunnust á fundinum um tillöguna og voru fundarmenn ekki á eitt sáttir um hana eins og hún var fram sett. Þótti tillagan nokkuð beinskeytt, auk þess sem fundarmönnum fannst ekki nægjanlega skýrt að skógræktarfélögin á Vestfjörðum stæðu að baki ályktuninni. Tillagan var hins vegar borin fram af stjórn Skógræktarfélags Íslands vegna óska frá aðildarfélögum Skógræktarfélags Íslands á sunnanverðum Vestfjörðum.

Niðurstaða skógræktarnefndar á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands var sú að leggja til að vísa tillögunni til stjórnar S.Í. og var það samþykkt á aðalfundinum. Það er því rangt eins og fram kemur í ályktun Skógræktarfélags Reykjavíkur að endanleg tillaga, sem fékk umfjöllun og afgreiðslu í stjórn Skógræktarfélags Íslands, sé í andstöðu við vilja aðalfundar. Þorri fundarmanna var hins vegar þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að umorða tillöguna, sem síðar var gert, og hún afgreidd af stjórn Skógræktarfélags Íslands með öllum greiddum atkvæðum, eins og áður er getið.

Í meðförum stjórnar Skógræktarfélags Íslands var ályktuninni verulega breitt frá upphaflegri tillögu og að endingu stóðu sjö skógræktarfélög á Vestfjörðum og Skógræktarfélag Íslands að ályktuninni sem samþykkt var á stjórnarfundi Skógræktarfélags Íslands þann 1. október sl.

Ályktunin er því í fullu samræmi við óskir skógræktarfélaganna og neðangreind fullyrðing Skógræktarfélags Reykjavíkur því fullkomlega röng, en þar segir:
Ályktun stjórnar félagsins ( S.Í) er ekki í samræmi við vilja kjörinna fulltrúa skógræktarfélaga í landinu eins og hann birtist á fundi aðalfundar Skógræktarfélags Íslands.

Skógræktarfélag Íslands eru landssamtök 61 skógræktarfélags víðs vegar um land og stjórn Skógræktarfélags Íslands leggur sig fram um að hlusta á þau málefni sem heitast brenna á félagsmönnum og geta orðið skógræktarfélögum og viðkomandi samfélagi til framdráttar. Öflugt starf sjálfboðaliða í skógræktarhreyfingunni er afar mikilvægt, en ekki sjálfgefið. Skógræktarfélag Íslands virðir mismunandi skoðanir og ályktanir einstakra félaga innan vébanda þess. Í því tilviki sem hér er rakið hlustaði stjórn Skógræktarfélag Íslands á raddir skógræktarmanna og fólksins sem býr við erfið samgönguskilyrði á Vestfjörðum og mat það svo að hagsmunir íbúa á svæðinu væru mikilvægari en að lítill hluti, 1% kjarrlendis í Þorskafirði og Teigsskógi, þyrfti að víkja fyrir betri samgöngum á svæðinu.