Skip to main content

Jólaskógar skógræktarfélaganna vinsælir

Með 14. desember, 2009febrúar 13th, 2019Fréttir frá skógræktarfélögum

Fyrir marga er heimsókn í jólaskóginn hjá skógræktarfélögunum orðinn fastur hluti af jólahaldinu og njóta þeir alltaf mikilla vinsælda. Sem dæmi má taka að hátt í 100 manns komu á svæði Skógræktarfélags Dýrafjarðar sunnudaginn 6. desember til að höggva sér jólatré, sem verður að teljast mjög gott  í ljósi þess að íbúar svæðisins eru um 400 talsins!

Skógræktarfélögin hafa líka verið að bæta við það sem þau bjóða upp á og má þar nefna til jóla- og leiðisskreytingar úr efniviði skógarins sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar býður í fyrsta sinn upp á nú fyrir jólin og að sjálfsögðu Jólamarkaðinn á Elliðavatni, hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, sem er nú haldinn þriðja árið í röð og vex bara að vinsældum.

Ef þið lumið á skemmtilegum myndum úr heimsókn í jólaskóg hjá einhverju skógræktarfélaganna nú fyrir jólin sem þið viljið deila með öðrum, endilega sendið þær til rf (hjá) skog.is, ásamt upplýsingum um hvar myndirnar eru teknar og nafni ljósmyndara. Myndirnar verða þá birtar á www.skog.is.

jolaskogarvinsaelir1
Hátt í 100 manns lögðu leið sína á Sanda að sækja jólatré (Mynd: www.thingeyri.is).

jolaskogarvinsaelir2
Jólaskreytingar hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar (Mynd: RF).

jolaskogarvinsaelir3
Fersk og ilmandi „tröpputré“ hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur (Mynd: RF).