Skip to main content

Opinn skógur að Fossá í Hvalfirði opnaður

Með 29. ágúst, 2011febrúar 13th, 2019Skógræktarverkefni

Laugardaginn 27. ágúst var skógurinn að Fossá í Hvalfirði formlega tekinn inn í verkefnið Opinn skóg. Af því tilefni var boðað til hátíðar í skóginum og mættu hátt í þriðja hundrað manns á hátíðina.

Skólahljómsveit Mosfellsbæjar tók á móti gestum með vel völdum lögum, en formleg dagskrá hófst á því að Eiríkur Páll Eiríksson, formaður Fossár, skógræktarfélags, bauð gesti velkomna. Að því loknu opnaði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skóginn formlega, með því að klippa á borða við stíg inn í skóginn.

Því næst gengu gestir á vit seiðandi harmonikkutónlistar í lundi í skóginum, Vigdísarlundi, sem nefndur  er í höfuðið á Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta.  Vígði Vigdís lundinn formlega með því að afhjúpaða skilti sem markar lundinn og ávarpa fundargesti. Að ávarpi Vigdísar loknu fluttu ávörp Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Bragi Michaelsson, formaður Skógræktarfélags Kópavogs,  og fulltrúar styrktaraðila Opinna skóga, Guðný Hansdóttir, starfsmannastjóri Skeljungs, og  Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka. Bragi nýtti einnig sitt ávarp til að gera Hjördísi Erlu Pétursdóttur að heiðursfélaga Skógræktarfélags Kópavogs og afhenti henni skjöld og blómvönd í tilefni þess.

Inn á milli atriða tók svo Karlakór Kópavogs lagið, auk þess sem Brynhildur Ásgeirsdóttir lék á þverflautu.

Að ávörpum loknum var svo boðið upp á hressingu – kaffi, kakó og bakkelsi, ásamt hollu grænmeti frá garðyrkjubændum, undir harmonikkuleik. Einnig var boðið upp á skemmtidagskrá fyrir börnin, meðal annars andlitsmálningu, klifurvegg og sögustund í skóginum.  Tókst hátíðin í alla staði vel, enda veður með eindæmum gott, sól og blíða. Nýttu margir tækifærið eftir að hátíð lauk til að fara í berjamó, enda víða góðar berjalendur í Hvalfirðinum.

Markmiðið með verkefninu „Opinn skógur“ er að opna fjölmörg skógræktarsvæði í eigu og umsjón skógræktarfélaga og gera þau aðgengileg almenningi. Verkefnið nýtur styrkja frá Skeljungi og Arion banka. Áhersla er lögð á að aðstaða og aðgengi sé góð og á að miðla upplýsingum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu.

osfossa