Skip to main content

Samningur um birkikynbætur undirritaður

Með 5. febrúar, 2015febrúar 13th, 2019Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands, Skógrækt ríkisins og Garðyrkjufélag Íslands undirrituðu samning þann 3. febrúar um frærækt og viðhaldskynbætur á birkiyrkinu ´Emblu´.
Birkikynbætur hófust með formlegum hætti innan samstarfshóps sem kenndi sig við Gróðurbótafélagið snemma árs 1987, en þar í voru fulltrúar frá Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélagi Íslands, Rannsóknarstofnun landbúnaðarins, Garðyrkjufélags Íslands, Garðyrkjuskóla ríkisins og Gróðrarstöðvarinnar Mörk, auk áhugamanna um bætt erfðaefni til garðyrkju og skógræktar í landinu. Árangur þess starfs er yrkið Embla, sem hefur reynst jafnbesta yrkið sem völ er á til ræktunar á innlendu birki í landinu. Fjallað var um upphaf verkefnisins og tilurð yrkisins í grein í Skógræktarritinu árið 1995.

Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur hefur frá upphafi stýrt verkefninu sem hefur orðið hvatning til margvíslegra annarra verkefna sem lúta að erfðafræði íslenska birkisins. Í ljósi þeirrar þekkingar sem fékkst í framkvæmd þessa verkefnis var ákveðið árið 2009 að halda áfram kynbótum birkisins að mestu innan erfðamengis Emblu, með nokkrum viðbótum. Einnig að tryggja framtíðarskipulag um frærækt og áframhaldandi bötun yrkisins með formlegum hætti. Í því augnamiði var ákveðið að Skógræktarfélag Íslands og Garðyrkjufélag Íslands yrðu rétthafar yrkisins og bæru formlega ábyrgð á því en Þorsteinn ynni áfram að kynbótunum í umboði þessara félagssamtaka.

Garðyrkjufélag Íslands, Skógræktarfélag Íslands, Landgræðslusjóður, Framleiðnisjóður og Reykjavíkurborg hafa stutt verkefnið með fjárframlögum. Miklu munar um þátttöku Gróðrarstöðvarinnar Markar sem hefur veitt verkefninu mikinn stuðning og aðstöðu frá upphafi. Skógrækt ríkisins lagði til aðstöðu á Mógilsá. Þá hefur Skógrækt ríkisins einnig lagt verkefninu til mikilvæga fræræktaraðstöðu frá vordögum 2013 í gróðurhúsi á Tumastöðum í Fljótshlíð og vinnu við alla umönnun trjánna í fræræktinni. Öll vinna Þorsteins og annarra aðstandenda verkefnisins hefur verið framlag þeirra.

Samningurinn tryggir að áfram verði unnið að kynbótum á íslensku birki og eykur möguleika trjáræktenda á að fá til ræktunar úrvalsbirki sem er bæði harðgert, beinvaxið og hraðvaxta. Skógrækt ríkisins sér um frærækt hins kynbætta birkis og miðlun fræsins til ræktenda.

birkikynbaetur

F.v. Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Þuríður Bachmann, formaður Garðyrkjufélags Íslands og Jón Loftsson skógræktarstjóri við undirritun samningsins.