Skip to main content

Skrína – nýtt vefrit á sviði auðlinda-, landbúnaðar- og umhverfisvísinda

Með 5. mars, 2014febrúar 13th, 2019Ýmislegt

Skrína, nýtt vefrit á sviði auðlinda-, landbúnaðar- og umhverfisvísinda hefur nú hafið göngu sína. Fyrstu tvær greinarnar sem birtar eru í ritinu fjalla annars vegar um notkun á smárablöndum í landbúnaði og sveppasjúkdóma á Íslandi.

Skrína mun birta bæði ritrýndar, fræðilegar greinar og ritstýrðar greinar almenns eðlis, auk nýgræðinga, ritfregna og ritdóma. Tekið er við greinum til birtingar allt árið og verða þær birtar jafnóðum og þær eru tilbúnar. Auk þess er mögulegt að gefa út sérhefti tengd ráðstefnum og öðrum atburðum eftir atvikum; til dæmis er fyrirhugað að árlega verði gefið út sérhefti tengt vísindaþingi landbúnaðarins ― LANDSÝN ― ef nógu margar greinar berast.

Það er von þeirra er standa að Skrínu, að hún geti orðið öflugur vettvangur fræðilegrar og faglegrar umræðu og styrki rannsóknar- og þróunarstarf á auðlinda-, landbúnaðar- og umhverfisvísinda. Fagfólk innan þessa geira er hvatt til að nýta þennan nýja vettvang vel til að koma rannsóknaniðurstöðum og öðru fræðilegu efni á á framfæri. Nánari upplýsingar um frágang og skil handrita er að finna á vefsíðu Skrínu (www.skrina.is).

Skrína verður öllum opin, sem tryggir ekki aðeins aðgang fræðasamfélagsins að niðurstöðum rannsókna sem þar eru birtar, heldur og alls almennings. Er það í samræmi við hugmyndafræði sem nú ryður sér víða til rúms, að niðurstöður rannsókna sem unnar eru fyrir almannafé eigi að vera öllum aðgengilegar.

Skrína er gefin út af Hólaskóla, Landbúnaðarháskóla Íslands, Landgræðslu ríkisins, Matís, Matvælastofnun (Mast), Skógrækt ríkisins og Veiðimálastofnun. Ritstjórn er skipuð fulltrúum þessara stofnana en ritstjóri er Ása L. Aradóttir.