Skip to main content

ÞÝSKALAND 2012

Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir fræðsluferð til Þýskalands dagana 11.-18. september 2012. Í ferðinni var haldið til Bæjaralands (Bayern) og skoðaðir skógar þar, auk sögustaða og fallegrar náttúru svæðisins.

Ferðin hófst á flugi til München þriðjudaginn 11. september þar sem aðal skipuleggjandi ferðarinnar, Marcus Kühling frá Þýska skógræktarfélaginu, tók á móti hópnum. Byrjað var á heimsókn til Skrifstofu matvæla, landbúnaðar og skógræktar (Amt für Ernährung, Landwirtschaft und Forsten) í Ebersberg, þar sem hópurinn fékk fræðslu um skóga og skógrækt í Bæjaralandi. Að því loknu var Ebersberger Forst skógurinn heimsóttur, þar sem meðal annars mátti sjá sérstakt verndarsvæði villidýra. Gist var næstu nætur í Ebersberg.

Miðvikudaginn 12. september var byrjað á heimsókn til fyrirtækisins Haas Fertigbau í Falkenberg, sem er hluti samsteypu með áherslu á viðarafurðir. Þar hitti hópurinn Gudula Lermer, formann Skógræktarfélag Bæjaralands og var hún með hópnum það sem eftir lifði dags. Einnig var bæjarskógur Eggenfelden skoðaður og farið á sýningu um notkun viðar í bænum Gern.

Fimmtudaginn 13. september var byrjað á að skoða skóg í Wasserburg-skógarumdæminu undir leiðsögn framkvæmdastjóra umdæmisins, en síðan var haldið að Chiemsee vatni. Þar var tekin ferja í eyjarnar Fraueninsel og Herreninsel og skoðuð merkustu mannvirki og náttúra þar og síðan haldið aftur til baka til Ebersberg.

Föstudagurinn 14. september var helgaður fjallaskógum í nágrenni Ruhpolding. Byrjað var á að hitta framkvæmdastjóra skógarumdæmisins og skógarvörð þar og sýndu þeir hópnum nokkur áhugaverð svæði. Eftir hádegismat í seli í fjöllunum var svo skoðaður tilraunareitur, sem settur var upp til að rannsaka endurnýjun skóga.

Laugardagurinn 15. september var helgaður Bayerischer Wald þjóðgarðinum, sem er stærsti og elsti þjóðgarður Þýskalands, en hann liggur að landamærum Þýskalands og Tékklands. Fékk hópurinn leiðsögn um eina upplýsingamiðstöð þjóðgarðsins, gengið var eftir upphækkaðri braut sem lá á milli trjákróna og  skoðaður skógur í um 1200 m hæð, við landamærin og nýttu ferðalangar að sjálfsögðu tækifærið til að koma tæknilega séð til Tékklands! Deginum lauk svo á akstri til Regensburg, þar sem gist var næstu tvær nætur.

Sunnudagurinn 16. september hófst á skoðunarferð um gamla miðbæinn í Regensburg, en að henni lokinni var haldið til Weltenburg klaustursins. Þar var stigið um borð í ferju og siglt eftir Dóná þar sem hún fellur í miklu gljúfri, Donaudurchbruch. Endaði siglingin í Kelheim en þar var heimsóttur Hienheimer skógurinn, þar sem skoðaður var hluti af honum, Ludwigshain, sem er mjög þekktur vegna eika sem þar standa. Einnig var haldið í teig með óvenju hávöxnum asktrjám.

Laugardagurinn 17. september hófst á heimsókn til skrifstofu Skógræktar Bæjaralands í Regensburg, þar sem sagt var almennt frá stofnuninni, uppbyggingu hennar, hlutverki, fjármögnun og fleira. Því næst var haldið til München. Byrjað var á að stoppa við Nymphenburg höllina, þar sem gefinn var frjáls tími, og svo var haldið til miðborgar München, þar sem aftur var gefinn frjáls tími fram að kvöldmat, en hann var snæddur í Hofbräuhaus í München.

Sunnudaginn 18. september var svo haldið heim á leið frá München upp úr hádegi.

Í 2. tölublaði Skógræktarritsins 2012 er grein um ferðina og má lesa hana hér (pdf).

Nokkrar myndir úr ferðinni má skoða á Fésbókarsíðu Skógræktarfélags Íslands (hér).