Skip to main content

Völvuskógur – Opinn skógur á Skógum undir Eyjafjöllum opnaður

Með 18. september, 2013febrúar 13th, 2019Skógræktarverkefni

Völvuskógur á Skógum undir Eyjafjöllum var formlega opnaður sem Opinn skógur sunnudaginn 15. september. Af því tilefni var efnt til hátíðardagskrár í skóginum.

Þrátt fyrir heldur leiðinlega veðurspá var vel mætt á opnunina, en hún hófst með göngu upp í skóginn, þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði skóginn formlega með því að klippa á borða við stíg inn í skóginn. Að því loknu tóku við ávörp frá Magnúsi Gunnarssyni, formanni Skógræktarfélags Íslands, Sigurði Inga, Ágústi Árnasyni, fulltrúa fyrrum nemenda Skógaskóla, en hann var einn af þeim sem tóku þátt í fyrstu gróðursetningunni, og Ísólfi Gylfa Pálmasyni, sveitarstjóra Rangárþings eystra. Inn á milli ávarpa tók Viðarbandið vel valin lög.

Að ávörpum loknum tók við ratleikur um skóginn fyrir yngri kynslóðina (og unga í anda!). Einnig var boðið upp á kaffihressingu og lauk dagskránni svo með gönguferð um skóginn. Kom þar vel í ljós hversu gott skjól skógurinn veitir, en inni í skóginum var hægur vindur, þótt fyrir utan hann væri hávaðarok.

Markmiðið með verkefninu „Opinn skógur“ er að opna fjölmörg skógræktarsvæði í eigu og umsjón skógræktarfélaga og gera þau aðgengileg almenningi. Verkefnið nýtur styrkja frá Skeljungi og Arion banka. Áhersla er lögð á að aðstaða og aðgengi sé góð og á að miðla upplýsingum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu.

Myndir frá opnuninni má skoða á Facebook-síðu Skógræktarfélagins (hér).