Skip to main content

Aðalfundur 2019

Með 26. júlí, 2019september 4th, 2019Aðalfundir

84. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Kópavogi dagana 30. ágúst til 1. september 2019. Skógræktarfélag Kópavogs var gestgjafi fundarins, en það fagnaði 50 ára afmæli á árinu.

Fundurinn hóst að venju á föstudagsmorgni með ávörpum. Fyrstur tók til máls Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og því næst steig Kristinn H. Þorsteinsson, formaður Skógræktarfélags Kópavogs í pontu. Næst flutti Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri ávarp og að því loknu tók Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, til máls.

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – kynning á skýrslu og ársreikningi Skógræktarfélags Íslands, skýrsla Landgræðslusjóðs, kynning tillagna að ályktunum og skipun í nefndir. Að því loknu var komið að fræðsluerindum. Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri í Kópavogi, fjallaði um Kópavog með grænum augum, Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar, fjallaði um loftslagsskóga og Kristinn H. Þorsteinsson sagði stuttlega frá fyrirhugaðri vettvangsferð dagsins.

Að hádegisverði loknum var svo haldið í vettvangsferðina. Byrjað var á því að heimsækja Þorstein Sigmundsson í Elliðahvammi og kynnast ræktun fjölskyldu hans þar, en því næst var haldið til Litladals við Lækjarbotna, þar sem Þröstur Ólafsson, fyrrverandi formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, hefur ræktað upp yndisskóg við sumarbústað sinn. Því næst var haldið í Guðmundarlund, þar sem haldin var mikil hátíð með ávarpi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, vígslu nýs fræðsluseturs í eigu Kópavogsbæjar og Skógræktarfélags Kópavogs og söng og veitingum.

Laugardagur hófst á nefndastörfum og að þeim loknum tóku við fræðsluerindi. Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur fjallaði um birkikynbætur, Björn Traustason hjá Skógræktinni kynnti Avenza kortlagningaappið, Kristinn H. Þorsteinsson sagði frá því helsta úr 50 ára starfi Skógræktarfélags Kópavogs og Orri Freyr Finnbogason arboristi sagði frá starfi sínu við trjáklifur og trjáhirðu. Síðastur á mælendaskrá var svo Friðrik Baldursson, sem kynnti vettvangsferð dagsins.

Að loknum hádegisverði var gengið frá fundarstað í Fagralundi að Meltungu og svæðið þar skoðað, en þar kennir ýmissa grasa, með yndisgarði, trjásafni, rósagarði og mörgu fleira. Var gengið um svæðið og mikið skoðað og endað á hressingu.

Dagskrá laugardags lauk svo með hátíðarkvöldverði, sem haldinn var í Menntaskólanum í Kópavogi og hátíðardagskrá í boði Skógræktarfélags Kópavogs. Þrír félagar í Skógræktarfélagi Kópavogs voru heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar, þeir Þorsteinn Sigmundsson, Pétur Karl Sigurbjörnsson og Friðrik Baldursson. Var þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu líka færðar árnaðaróskir og voru mættir fulltrúar frá tveimur þeirra – Skógræktarfélagi Kópavogs sem fagnaði 50 ára afmæli og Skógræktarfélagi Skilmannahrepps, sem er 80 ára. Einnig voru þau Elísabet Kristjánsdóttir og Þorvaldur S. Þorvaldsson gerð að heiðursfélögum Skógræktarfélags Íslands.

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, ályktana og kosning stjórnar. Engar breytingar urðu á stjórn. Í varastjórn voru kosin þau Kristinn H. Þorsteinsson, Skógræktarfélagi Kópavogs, Valgerður Auðunsdóttir, Skógræktarfélagi Árnesinga, og Björn Traustason, Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar.

Fundargögn
Samþykktar ályktanir aðalfundar 2019 (.pdf)
Dagskrá (.pdf)
Starfsskýrsla og reikningar Skógræktarfélags Íslands (.pdf)
Starfsskýrsla og ársreikningur Landgræðslusjóðs (.pdf)
Kolviður – ársreikningur 2018 (.pdf)
Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu – ársreikningur 2018 (.pdf)
Úlfljótsvatn sf – ársreikningur 2018 (.pdf)
Yrkja – ársreikningur 2018 (.pdf)

Erindi á fundi og fylgigögn:
Björn Traustason – Avenza Maps (.pdf)
Friðrik Baldursson – Kópavogur með grænum augum (.pdf)
Friðrik Baldursson – Trjásafnið í Meltungu (.pdf)
Friðrik Baldursson – Trjásafnið í Meltungu (grein) (.pdf)
Friðrik Baldursson – Meltunga – Ættkvíslarlisti (.pdf)
Friðrik Baldursson – Meltunga – kort (.pdf)