Skip to main content

Íslenskt skógræktarfólk hefur lengi sótt sér þekkingu, reynslu og innblástur frá löndum með stærri skóglendi en finnast hér á landi og með lengri sögu skógræktar og nýtingar skóga. Mikið hefur í gegnum tíðina verið leitað til nágranna okkar í austri, Noregs, og er eitt skýrasta dæmið um það svokallaðar skiptiferðir. Í stuttu máli snérust þær um það að hópur íslensks skógræktarfólks fór í heimsókn til Noregs að kynna sér skóga og skógrækt þar og vinna að skógræktarverkum þar í sjálfboðavinnu og á móti kom norskur hópur til Íslands. Voru þessar ferðir oft upphaf að miklum vinskap og tengslum, sem héldust jafnvel í áratugi. Fyrsta skiptiferðin var farin árið 1949 og sú síðasta 2000 og því um áratuga samstarf og samvinnu að ræða, sem hefur markað ýmis spor í skógræktarsögu beggja landa.

Búið er að rita bók – Frændur fagna skógi – sem fjallar á ítarlegan hátt um samskipti Íslands og Noregs hvað varðar skógrækt og timburnytjar, allt frá upphafi byggðar á Íslandi, en megin áhersla bókarinnar er á skiptiferðirnar.

Hér verður sett inn ýmislegt efni sem safnað var saman við vinnslu bókarinnar, en ekki gafst rými fyrir í henni. Er það hugsað sem viðauki við bókina og gullkista fróðleiks fyrir áhugasama grúskara!