Skip to main content

ÁLFHOLTSSKÓGUR

Álfholtsskógur í Hvalfjarðarsveit var formlega opnaður sem Opinn skógur laugardaginn 20. júní 2020, er börn úr Heiðarskóla klipptu á borða inn í skóginn.

Skógurinn er í umsjón Skógræktarfélags Skilmannahrepps. Félagið var stofnað af ungu fólki með ungmennafélagshugsjón 17. desember 1939 á Litlu-Fellsöxl og hét þá Samvinnufélagið Hreyfill og hafði ýmis mál á stefnuskránni, m.a. skógrækt.

Nafni félagsins var fljótlega breytt í Skógræktarfélag Skilmannahrepps. Þar með var skógrækt orðin eitt af aðal markmiðum félagsins.
Í stefnuskrá segir meðal annars:
1. Tilgangur félagsins og markmið, er að efla félagsskap í hreppnum og starfa að ýmsum þeim málum, sem til gagns og menningar geta talist.
2. Fyrst og fremst tekur félagið skógrækt til meðferðar, og ákveður að girða einn eða fleiri bletti, sem það getur fengið til umráða.

Fyrsta landspilda til skógræktar var fengin 1940. Magnús Símonarson á Stóru-Fellsöxl lagði til spildu úr landi sínu undir skógrækt í kjölfar þess að Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, gerði úttekt á landkostum í sveitinni.

Girt var í kringum landið og handgrafnir skurðir á tvo vegu til að þurrka það, því þetta var blautt land og er enn. Seinna bættust við hálfgrónir melar og klapparholt. Byrjað var á að herfa hluta landsins og sá í það birkifræi. Síðar voru fengnar berrótarplöntur, aðallega birki og eitthvað af reyni.

Árið 1963 var fengið meira land í framhaldi af því sem fyrir var. Var þá stækkað til vesturs að Brunná, sem er á landamerkjum Litlu-Fellsaxlar, og í austur að Sellæk sem er rétt fyrir vestan Fannahlíð. Gerður var samningur um landið og undirritaður 20. maí 1964.
Aftur var stækkað 1983. Til norðurs fyrir neðan Selhæð 25 ha. niður að gamla Akrafjallsveginum (Fellsaxlarvegi). Meira land var fengið 10 árum síðar, austan Fellsaxlarvegar, ca. 21 ha., þar sem er Álfholt. Síðasta stækkun var 2003, sem nær upp á brekkubrún í norðaustur frá Fannahlíð og að þjóðvegi 1, um það bil 22,5 ha. Núverandi svæði í umsjá félagsins er u.þ.b. 75 ha. Búið er að planta um það bil 220 þúsund plöntum í svæðið frá upphafi sem er að mestu fullplantað nema mýrarsvæðið austanvert. Mest er af birki, ösp, greni, furu, lerki og reyni. Víðiplöntur af ýmsu tagi voru notaðar í skjólbelti í upphafi.

Skilmannahreppur og síðar sameinað sveitarfélag, Hvalfjarðar-sveit, hefur stutt vel við félagið, bæði með útvegun lands og með beinum fjárstuðningi og velvild, m.a. ákveðið að leiguland það sem félagið hefur til umráða verði ekki tekið undir annað eða selt.

Frá upphafi hafa verið góðir stígar í skóginum og hefur verið unnið markvisst að því að opna skóginn meira með stígagerð og grisjun. Bætt hefur verið við fjölda tegunda trjáa og runna til þess að auka við upplifun þeirra sem um skóginn fara. Fjöldi tegunda trjáa og runna er meira en 130.

Skilti hafa verið sett upp til að merkja göngustíga um allt svæðið og önnur til að benda á sérstaka eftirtektarverða náttúru eða fyrirbæri. Safnað hefur verið örnefnum og önnur búin til, til að leiða fólk um skóginn.

Kort af svæðinu má skoða hér (.pdf)