Skip to main content

ARKHANGELSK 2006

Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir kynnisferð skógræktaráhugafólks til Rússlands dagana 28. ágúst til 6. september 2006. Þátttakendur í ferðinni voru tæplega 90. Ferðin var undirbúin í samstarfi við Pétur Óla Pétursson, sem búsettur hefur verið í nokkur ár í St. Pétursborg og rekur fyrirtæki þar, en hann hefur einnig verið fararstjóri fyrir marga íslenska ferðahópa. Einnig fannst góður liðsmaður í Arkhangelsk, Páll Sigurðsson, sem er þar í skógfræðinámi og var hann félaginu innan handar á þeim slóðum.Fararstjórar frá Skógræktarfélagi Íslands voru Einar Gunnarsson og Jón Geir Pétursson.

Ferðin gekk í alla staði vel. Gert var út frá tveimur afar mismunandi stöðum, Arkhangelsk og nágrenni og svo St. Pétursborg. Ferðin hófst þann 28. ágúst með flugi til Helsinki í Finnlandi, en þaðan var ekið yfir landamærin til Rússlands og fyrstu nóttinni eytt í bænum Vyborg, þar sem brunalykt frá nálægum skógareldum tók á móti hópnum. Byrjað var á því að skoða lerkilundinn í Raivola, en eftir heimsókn í hann var flogið til Arkhangelsk, þar sem hópurinn dvaldi næstu fjóra daga. Í Arkhangelsk var margt að sjá og heimsótti hópurinn m.a. sögunarmyllu, trjásafn háskólans í Arkhangelsk og byggðasafn. Einnig var ekið um sveitir Rússlands í einn dag, þegar þorpið Pinega var heimsótt. Frá Arkhangelsk var flogið til St. Pétursborgar þann 2. september og var gert út þaðan það sem eftir lifði ferðar, en flogið var með beinu flugi heim þann 6. september.

Til gamans má geta þess að í lok ferðarinnar var Pétri Óla fært fyrirheit um 1000 trjáplöntur að gjöf, sem þökk fyrir umsjónina. Kom stór hluti ferðalanganna saman í júlí 2007 að Vindheimum í Skagafirði til að gróðursetja plönturnar hans Péturs, rifja upp ferðina og skemmta sér.

Í 1. tbl. Skógræktarritsins 2007 er grein um ferðina og má lesa hana hér (pdf).

Í 2. tbl. Skógræktarritins 2007 er svo framhaldsgrein er fjallar sérstaklega um Raivola-lundinn og má lesa hana hér (pdf).