Skip to main content

Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir ferð til Króatíu dagana 23. september til 1. október 2023.

Flogið var til Mílanó á Ítalíu laugardaginn 23. september og ekið þaðan til Lipica í Slóveníu, þar sem gist var fyrstu nóttina. Þaðan var svo ekið daginn eftir til Króatíu. Þann dag var heimsótt gróðrarstöð í eigu króatísku skógræktarinnar og svo haldið að bænum Rijeka, þar sem gist var næstu nótt.

Mánudaginn 25. september var farið um Gorski Kotar fjallasvæðið þar sem skoðaðir voru skógar, þar á meðal útivistarskógur, með fulltrúum frá króatísku skógræktinni. Því næst var haldið til höfuðborgarinnar Zagreb, þar sem gist var næstu nótt.

Þriðjudaginn 26. september hófst á heimsókn í rannsóknastöð skógræktar í Jastrebarsko, en þaðan var haldið út í eikarskóga, bæði unga og aldna. Að skógarheimsókn lokinni var svo haldið til Plitvice, þar sem gist var, en næsti dagur var að mestu leyti helgaður Plitvice þjóðgarðinum, sem þekktur er fyrir náttúrufegurð. Miðvikudeginum lauk svo með akstri til Zadar, þar sem gist var næstu tvær nætur.

Fimmtudagurinn 28. september var frjáls dagur og nýttu ferðalangar hann eftir sínu höfði. Daginn eftir, föstudaginn 29. september, var byrjað á að heimsækja útivistarskóg í nágrenni Zadar en síðan ekið með Adríahafsströndinni til Split, þar sem farið var í stutta skoðunarferð um gamla bæinn um kvöldið og svo gist þar.

Laugardaginn 30. september var komið að því að yfirgefa Króatíu og halda til Ítalíu. Upphaflega stóð til að fljúga frá Split, en flugið var fært til Zadar, svo dagurinn byrjaði á akstri til Zadar og flugi yfir Adríahafið til Rómar. Þegar þangað var komið var haldið í Villa d’Este garðinn, áður en komið var að innritun á hótel í Róm, þar sem gist var síðustu nóttina, en flogið var heim daginn eftir og lent í Keflavík að kvöldi 1. október.

Í 2. tbl. Skógræktarritsins 2023 má lesa nánar um ferðina (.pdf)