Skip to main content

NOREGUR 2009

Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir kynnisferð skógræktaráhugafólks til Noregs dagana 3.-9. september 2009. Þátttakendur í ferðinni voru 33. Fararstjórar voru Johan Holst, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga og Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands.

Ástæða þess að Noregur varð fyrir valinu þetta árið var sú að árið 2009 voru 60 ár frá því Skógræktarfélag Íslands stóð fyrst fyrir kynnisferð skógræktaráhugafólks á erlenda grund og var það til Noregs.

Ferðin hófst árla morguns fimmtudaginn 3. september á flugi til Bergen. Eftir innkaup á vistum og stuttan hádegismat var haldið í Trjá- og grasagarðinn í Bergen og hann skoðaður undir leiðsögn. Margt mjög áhugavert var að sjá þar, meðal annars Japanska garðinn svokallaða, rósagarð og safn reynitrjáa.

Næsti dagur var helgaður útivistarskógi Bergen-búa . Byrjað var á að taka kláf (Flöibanen) upp á fjallið Flöyen, en þar tóku á móti hópnum Jörgen og Kjetil frá Skógræktarfélagi Bergen. Þótt ótrúlegt megi teljast tók Bergen á móti hópnum með þurrviðri, þannig að engin regnský eða dumbungur truflaði útsýni frá endastöð Flöibanen, en þar gefst virkilega gott tækifæri til að sjá yfir borgina og nágrenni. Frá endastöðinni var gengið eftir skógarstígum að „Skóaravatninu“ (Skomakerdiket), þar sem er hið fínasta útivistarsvæði með borðum, bekkjum og grillaðstöðu. Þaðan var svo gengið áfram til Åsebu, þar sem Skógræktarfélagið í Bergen bauð upp á léttan hádegismat. Að lokum var gengið áleiðis niður Flöyen að starfsstöð skógræktarfélagsins og hún skoðuð. Eftir það gafst þátttakendum tækifæri til að skoða sig um í Bergen á eigin vegum seinni part dags en um kvöldið var ekið til bæjarins Voss.

Dagurinn eftir var helgaður skógum og skógrækt í Harðangursfirði og tóku fulltrúar frá skógeigendasambandinu á móti hópnum. Byrjað var á að heimsækja skógarbónda í Strindeskleiv. Var hópnum sýndur skógurinn og sú starfsemi sem þar fer fram, en skógurinn er nýttur bæði til afurðavinnslu og útivistar. Einnig var vegur í gegnum skóginn vígður hátíðlega við þetta tækifæri, með afhjúpun myndarlegs bautasteins. Eftir þennan góða göngutúr í gegnum skóginn voru ferðalangar farnir að finna til svengdar og var næsti viðkomustaður því Löo, þar sem boðið var upp á hefðbundna saltkjötssúpu í útihúsum sem búið var að gera upp sem samkomuhús. Leyndi skyldleiki súpunnar við hina íslensku kjötsúpu sér ekki. Því næst var tekin ferja yfir Harðangursfjörðinn og safnið í Agatunet heimsótt, þar sem er að finna vel varðveitt dæmi um landbúnaðarsmáþorp, en elsta húsið þar er frá því fyrir 1300. Agatunet var reyndar upphaflega eitt býli, en skiptist í fleiri einingar í gegnum aldirnar. Í safninu var hópnum boðið upp á kaffi og eplaköku, en í nágrenninu er mikil eplarækt stunduð.

Næsti dagur, sunnudagurinn 6. september, fór að mestu leyti í akstur til Hamar, en vegir á leiðinni bjóða almennt ekki upp á mikinn hraðakstur og var þetta því nokkuð langur dagur. Ekið var um Sognfjörðinn með viðkomu við Tvindefossen, sem er skemmtilegur foss og í Leikanger, þar sem skoðaður var mjög svo sérstæður garður við prestssetrið þar, en þar má finna ýmsar fágætar trjátegundir, til dæmis „apahrelli“ (Araucaria araucana), auk þess sem stuttlega var skoðuð hefðbundin stafkirkja í Hopperstad. Ekið var um Jötunheima, þar sem gafst tækifæri til að sjá heiðalandslag og jökla, og þaðan niður Guðbrandsdalinn til Hamar, með einu góðu stoppi í bænum Lom, en þar varð bílstjórinn að taka Evróputilskipaðan þriggja kortéra hvíldartíma. Nýttist stoppið ágætlega því veður var gott og meðal annars hægt að skoða hefðbundna stafkirkju í bænum.

Mánudaginn 7. september voru tvö atriði á dagskránni – Norska skógarsafnið og Norski skógarfræbankinn . Byrjað var í safninu, þar sem hópurinn fékk stutta leiðsögn og var svo gefinn frjáls tími til að skoða sig um, en safnið sjálft er umfangsmikið, auk þess sem útisvæði þess tengist á skemmtilegan hátt útivistarsvæðum í nágrenninu. Í Norska skógarfræbankanum tók Øyvind Edvardsen, framkvæmdastjóri skógarfræbankans á móti ferðalöngunum með kaffi og meðlæti og svo leiðsögn um bankann og starfsemi hans. Að lokum leiddi Øyvind svo hópinn í smá gönguferð að rústum gömlu dómkirkjunnar í Hamar.

Daginn eftir var stefnan tekin til Osló og útivistarsvæði Osló-búa, Oslomarka. Í Oslomarka var byrjað á að heimsækja svæðið í kringum Sognsvatnið, þar sem Skógræktarfélagið í Osló var að taka á móti hundruðum skólabarna á árlegum skógardegi. Á skógardeginum fá börnin að kynnast skógrækt og helstu þáttum hennar, auk þess sem þau fá að smíða og föndra úr skógarafurðum. Eftir hádegismat í Frognerseter, en þaðan er mjög fallegt útsýni yfir Osló, var svo aftur haldið í skógargöngu, undir leiðsögn, þar sem Oslomarka og málefni þess var kynnt nánar.

Lauk þar með formlegum fræðsluhluta ferðarinnar, en seinni part þriðjudagsins og miðvikudagsmorgun gafst ferðalöngunum tækifæri til að skoða sig um í Osló á eigin vegum. Ferðinni lauk svo með flugi heim til Íslands seinni part miðvikudagsins 9. september.

Í 2. tbl. Skógræktarritsins 2009 er grein um ferðina og má lesa hana hér (pdf).

Í 2. tbl. Skógræktarritsins 2009 er grein um ferðina og má lesa hana hér (pdf).

Skoða má svipmyndir úr ferðinni hér (pdf – 7 Mb).