Skip to main content

PÓLLAND 2015

Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir fræðsluferð til Póllands dagana 10. – 18. ágúst. Var ferðin skipulögð í samráði við Rafał Cieślak, skógfræðing hjá pólska skógræktarfélaginu, sem fylgdi hópnum allan tímann og Margréti Lojewska, sem búsett er hérlendis. Var ferðast um og skoðaðir skógar, þjóðgarðar og menningarstaðir.

Ferðin hófst með flugi til Berlín í Þýskalandi fimmtudaginn 10. september, en þar var farið í rútur og ekið yfir til Póllands. Var byrjað á að heimsækja gróðrarstöð á vegum pólsku ríkisskógræktarinnar í Legnica, en að þeirri heimsókn lokið var haldið til bæjarins Wrocław, þar sem gist var fyrstu nóttina.

Föstudaginn 11. september var svo ekið til Zakopane, þar sem gist var næstu tvær nætur. Í Zakopane var Tatra þjóðgarðurinn í Tatra-fjöllunum heimsóttur  og fór laugardagurinn 12. september allur í göngu- og skoðunarferðir um þjóðgarðinn, enda mikið að sjá og skoða og um töluvert brattlendi að fara.

Sunnudaginn 13. september var svo haldið til Kraká. Á leiðinni var Wieliczka saltnáman í útjaðri Kraká heimsótt, en hún er á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Komið var síðdegis til Krakár og fékk hópurinn frjálsan tíma í borginni eftir það. Boðið var upp á skoðunarferð um Kraká að morgni 14. september fyrir þá sem vildu, en annars höfðu ferðalangar frjálsar hendur með hvernig tíma var varið í Kraká.

Þriðjudaginn 15. september var haldið frá Kraká til Białowieża þjóðgarðsins og var ekkert gert þann dag annað en að koma sér þangað, enda um langa leið að ræða. Dagurinn eftir, þann 16. september, var helgaður Białowieża þjóðgarðinum, en í honum er að finna einn merkilegasta skóg Evrópu, stærstu samfelldu leifar „frumskógarins“ sem einu sinni þakti stóran hluta álfunnar. Var byrjað á að fara í gönguferð um skóginn um morguninn, en síðdegis var haldið til sérstaks sýningarfriðlands þar sem sjá má nokkrar tegundir þeirra dýra sem finnast í skóginum, þeirra þekktast er evrópski vísundurinn.

Fimmtudaginn 17. september var byrjað á að fara í klukkutíma lestarferð um hluta Białowieża skógarins, en svo stigið um borð í rútu og haldið beint til Varsjár, þar sem gist var síðustu nótt ferðarinnar. Var haldinn kveðjukvöldverður á veitingastað í Varsjá sem býður upp á hefðbundinn pólskan mat, þjóðdansa og tónlist. Síðasta dag ferðarinnar, þann 18. september, var boðið upp á leiðsögn um Varsjá fyrir hádegi og svo fékk hópurinn frjálsan tíma fram að brottför, en flogið var heim frá Varsjá að kvöldi dags og lent í Keflavík upp úr miðnætti.

Í 2. tölublaði Skógræktarritsins 2015 er grein um ferðina og má lesa hana hér (.pdf).

pl1
Í Białowieża þjóðgarðinum (Mynd: RF).