Skip to main content

SKOTLAND 2011

Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir fræðsluferð til Skotlands dagana 25. september til 2. október 2011. Í ferðinni var farið um skosku Hálöndin og skoðaðir skógar, grasagarðar, sögustaðir og falleg náttúra Hálandanna.

Ferðin hófst á flugi til Glasgow sunnudaginn 25. október. Þar tók rúta á móti hópnum og ekið var sem leið lá norður til höfuðstaðar Hálandanna, Inverness, en þar var gist fyrstu þrjár næturnar.

Mánudaginn 26. september var haldið til eyjunnar Skíð (Skye). Meðal annars var ekið með bökkum Loch Ness (og svipast um eftir skrímslinu Nessie), stoppað við Eilean Donan kastalann og Portree, stærsti bær á Skíð, heimsóttur.

Þriðjudaginn 27. september var byrjað á að heimsækja Muir of Ord viskíverksmiðjuna, en því næst var haldið til bæjarins Dingwall (Þingvalla), en hann er einn af mörgum Þingvöllum sem finnast á Bretlandseyjum. Eftir hádegi gafst ferðalöngum svo frjáls tími í Inverness.

Miðvikudaginn 28. september var farið frá Inverness og ferðast um hjarta Hálandanna um svokallað „Big Tree Country“ – landssvæði stóru trjánna.  Meðal annars var kíkt á „móður“ stórs hluta lerkitrjáa í Skotlandi í Dunkeld og eitt elsta tré í heimi í Fortingall og litið í garðinn við Blair Atholl kastalann. Endað var í smábænum Drymen, þar sem gist var næstu þrjár nætur.

Fimmtudaginn 29. september var tileinkaður Queen Elizabeth Forest Park og nágrenni. Byrjað var á að hitta fulltrúa skosku skógstjórnarinnar (Forestry Commission) í David Marshall Lodge og fræddu þeir ferðalangana um skógarmál í Skotland – áherslur skógstjórnarinnar og helstu vandkvæði í skógrækt í Skotlandi. Þaðan var haldið til Loch Katrine, þar sem byrjað var á gönguferð við vatnið en því næst haldið í siglingu á Loch Katrine á aldar gömlu gufuskipi, Sir Walter Scott.

Föstudagurinn 30. september var mikill trjádagur, en þá var byrjað á að heimsækja grasagarðinn í Ardkinglas, þar sem finna má hæsta tré Bretlandseyja, risaþin sem er rúmlega 64 m á hæð. Því næst var haldið til Inverary, þar sem snæddur var hádegisverður í Inverary kastalanum, en þaðan var haldið til Benmore grasagarðsins.

Laugardagurinn 1. október hófst á skoðunarferð í Stirling kastalann. Eftir það var haldið til Glasgow, þar sem gist var síðustu nóttina. Fengu ferðalangarnir frjálsan tíma þar það sem eftir var dags og nýttu það til að skoða söfn, kíkja í búðir eða bara rölta um bæinn og skoða hann.

Sunnudaginn 2. október var svo flogið heim frá Glasgow upp úr hádegi.

Í 2. tbl. Skógræktarritsins árið 2011 er grein um ferðina og má lesa hana hér (pdf).

Nokkrar myndir úr ferðinni má skoða á fésbókarsíðu Skógræktarfélags Íslands (hér).