Skip to main content

SPÁNN 2018

Skógræktarfélag Íslands skipulagði fræðsluferð til norðurhluta Spánar dagana 17. – 24. október 2018.

Flogið var til Barcelona miðvikudaginn 17. október. Lent var síðla dags og gist þar fyrstu nóttina. Daginn eftir var ekið til bæjarins Jaca, með viðkomu í Montserrat, en í Jaca var gist næstu þrjár nætur.

Föstudaginn 19. október var haldið upp í Pýrenea-fjöllin, þar sem skoðaðir voru fjallaskógar og beykiskógar undir leiðsögn innlends skógfræðings.

Laugardaginn 20. október var Ordesa y Monte Perdido þjóðgarðurinn heimsóttur og skoðaðir skógar þar, sem voru miklir og fallegir í haustlitunum, auk þess sem komið var við í dæmigerðum fjallasmábæ.

Daginn eftir var haldið frá Jaca aftur til Barcelona. Heimsótt var ein vínrækt á leiðinni, þar sem gafst tækifæri til að smakka á afurðunum.

Í Barcelona var svo gist það sem eftir var ferðar, í gotneska hverfinu svo kallaða. Mánudaginn 22. október var farið í skoðunarferð um bæinn undir leiðsögn, en daginn eftir var frjáls tími fram að kvöldverði og nýttu ferðalangar sér það eftir áhugamálum. Um kvöldið var haldið í hátíðarkvöldverð og flamenco-sýningu.

Lokadagur ferðarinnar, 24. október, var vel nýttur, enda flug frá Barcelona að kvöldi til. Haldið var til Figueres, fæðingaborgar Salvador Dali og skoðað safn helgað honum, auk þess sem gert var stutt stopp í bænum Girona. Ferðinni lauk svo með flugi til Keflavíkur frá Barcelona.

Í 2. tölublaði Skógræktarritsins 2019 var grein um ferðina og má lesa hana hér (.pdf)