Skip to main content

Skógræktarfélag Íslands býður til samvinnu um atvinnuátak

Með 13. maí, 2020Fréttir

Á stjórnarfundi 11. maí samþykkti stjórn Skógræktarfélags Íslands fyrir hönd aðildarfélaga, sem eru um 60 talsins víðsvegar um land, að bjóðast til að standa fyrir víðtæku atvinnuátaki í samstarfi við sveitarfélög og skógræktarfélög um land allt.

Félagið og aðildarfélög þess stóðu fyrir Atvinnuátaki á árunum 2009-2012 með góðum árangri sem skapaði hundruð uppbyggilegra starfa við ýmiskonar umhirðustörf í skógum landsins, uppbyggingu svæða, gróðursetningu, stígagerð, grisjun og margt fleira.

Núverandi ástand kallar á samstilltar aðgerðir og verkefni sem færa okkur betra nærumhverfi og veita fjölmörgum ungmennum áhugaverð og gagnleg tækifæri til þess að starfa úti í íslenskri náttúru í tvo til þrjá mánuði. Tilhögun atvinnuátaksins gæti verið með svipuðum hætti og gafst svo vel fyrir um 8 árum. Gerður yrði þríhliða samningur milli Skógræktarfélags Íslands, skógræktarfélags á hverjum stað fyrir sig og viðkomandi sveitarfélags. Skógræktarfélögin leggðu fram tillögur að umhverfis- og skógræktarverkefnum á svæðum sínum og áætlun um fjölda mannmánaða. Framlag sem Skógræktarfélag Íslands hefur nú sótt um til ríkisins, kr. 70 milljónir, stæði straum af kostnaði við efni, aðstöðu og fólksflutninga upp að ákveðnu marki. Sveitarfélögin réðu starfsmenn og greiddu þeim laun. Sveitarfélög eiga þess kost að ráða fólk af atvinnuleysisskrá til starfa og gætu þá sótt um mótframlag til launagreiðslna í atvinnuleysistryggingasjóð.

Með þessum hætti væri hægt að skapa fjölmörg störf með litlum tilkostnaði.