Árlegt átak Lands og skógar í samvinnu við skógræktarhreyfinguna og fleiri samtök og fyrirtæki hefst formlega á degi íslenskrar náttúru 16. september. Fyrsti viðburðurinn verður á vegum Lionsklúbbsins Sifjar í Reykhúsaskógi í Eyjafjarðarsveit klukkan sautján í samvinnu við Skógræktarfélag Eyfirðinga og skógarbændur í Reykhúsum.
Gott fræár er nú á birki um allt land sem er nokkuð óvenjulegt því gjarnan er fræmyndun á birki mjög misjöfn á landinu frá ári til árs. Í fyrra var mjög lítið um birkifræ nema í Vesturbyggð og þá var áhersla lögð á það svæði í átakinu Söfnum og sáum birkifræi sem nú hefur staðið yfir frá árinu 2020.
Þetta árið ríður Lionsklúbburinn Sif í Eyjafjarðarsveit á vaðið og efnir til fræsöfnunar í Reykhúsaskógi í Eyjafjarðarsveit á degi íslenskrar náttúru, mánudaginn 16. september, klukkan 17. Öllum er þar velkomið að koma og taka þátt í söfnuninni með klúbbfélögum og fulltrúum frá Skógræktarfélagi Eyfirðinga sem tekur þátt í viðburðinum. Reykhúsaskógur er samliggjandi Kristnesskógi til norðurs og gengið inn í hann norðan við Kristnesspítala.
Þrátt fyrir gott útlit um birkifræ í öllum landshutum þetta haustið ber að benda á að fræið hefur þroskast heldur hægt víðast hvar sökum þess hve sumarið hefur verið rysjótt og sólarlítið. Víða eru fræreklarnir á birkinu enn grænir en þó er farið að fréttast af reklum sem orðnir eru ljósbrúnir, til dæmis á Austfjörðum. Þar sem þeir eru enn grænir og harðir viðkomu gæti verið rétt að bíða með fræsöfnun. Birkifræi má safna langt fram á haust, svo lengi sem fræið hangir á trjánum.
Eins og undanfarin ár verða söfnunarkassar í Bónus-verslunum um allt land og á Olís-stöðvum. Sömuleiðis er tekið við fræi á starfstöðvum Lands og skógar sem eru nítján talsins í öllum landshlutum. Þessa dagana er verið að koma söfnunarkössunum upp og því verki ætti að vera lokið kringum 20. september. Pappaöskjur sem Prentmet Oddi framleiðir fyrir átakið verða fáanlegar til að safna fræinu í en einnig er gott að safna fræinu í bréfpoka eða tauskjóður. Aðalatriðið er að fræið nái að þorna í umbúðunum því að annars er hætta á að það mygli og skemmist.
Fólk er hvatt til að leggja birkiskógum landsins lið við að breiðast út á ný, annað hvort með því að safna fræi og senda inn í söfnunina eða með því að dreifa á eigin spýtur því fræi sem sáð er. Leita má til Lands og skógar, sveitarfélaga eða skógræktarfélaga eftir ábendingum um svæði sem vert er að sá í.
Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs, hefur yfirumsjón með söfnunarátakinu á birkifræi. Hann veitir nánari upplýsingar í netfanginu birkiskogur@gmail.com eða í síma 839 6700.
Nýlegar athugasemdir