Skip to main content

Aðalfundur 2017

Með 28. ágúst, 2017ágúst 27th, 2019Aðalfundir

82. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Stórutjarnaskóla dagana 25. – 27. ágúst 2017. Skógræktarfélag S-Þingeyinga var gestgjafi fundarins. Á annað hundrað fulltrúar, víðs vegar af landinu, sóttu fundinn, sem var vel heppnaður.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgni með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Agnesar Þórunnar Guðbergsdóttur, formanns Skógræktarfélags S-Þingeyinga, Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra og Dagbjartar Jónsdóttur, sveitarstjóra Þingeyjarsveitar.

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi – skýrslur stjórna Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs, kynning reikninga félagsins, fyrirspurnir og skipun í nefndir. Einnig hélt Dagbjört Jónsdóttir stutta kynningu á Þingeyjarsveit.

Eftir hádegi var svo haldið í vettvangsferð. Byrjað var á að aka upp Reykjadal og horft til skóga þar, en þaðan var haldið til Húsavíkur, þar sem Skrúðgarðurinn á Húsavík var heimsóttur og þegin hressing í boði Norðurþings. Þaðan var svo haldið í Fossselsskóg, þar sem Skógræktarfélag S-Þingeyinga stóð fyrir hátíðarsamkomu.

Dagskrá laugardagsins hófst á nefndastörfum. Að þeim loknum tóku við fræðsluerindi. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri sagði frá sögu uppgræðslu á Hólasandi,Daði Lange Friðriksson, Landgræðslu ríkisins, sagði frá helstu framkvæmdum á Hólasandi, Gunnhildur Ingólfsdóttir sagði frá gróðursetningu með sérstakri gróðursetningavél og sýndi myndskeið af henni í notkun, Valgerður Jónsdóttir frá Skógræktinni sagði frá frærækt á Vöglum og að lokum fjallaði Arnór Snorrason, Skógræktinni, um ýmsar niðurstöður úr úttektum íslenskrar skógarúttektar á Mógilsá á útbreiðslu og vexti náttúrulegra birkiskóga.

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð í Vaglaskóg. Þar tóku Rúnar Ísleifsson skógarvörður og Valgerður Jónsdóttir á móti fundargestum. Fengu gestirnir að skoða Fræhöllina áður en haldið í stutta gönguferð um skóginn og endað á veislu í skóginum, þar sem meðal annars var boðið upp á ketilkaffi og eldbakaðar lummur.

Dagskrá laugardags lauk svo á hátíðarkvöldverði og kvöldvöku í umsjón gestgjafanna, undir stjórn Arnórs Benonýssonar. Fimm félagar í Skógræktarfélagi S-Þingeyinga voru heiðraðir fyrir störf í þágu skógræktar, þau Atli Vigfússon, Álfhildur Jónsdóttir, Dagur Jóhannesson, Indriði Ketilsson og Ólafur Eggertsson.

Á sunnudeginum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, ályktana og kosning stjórnar. Laufey B. Hannesdóttir, sem verið hafði varamaður, kom ný inn í stjórn félagsins, í stað Sigríðar Júlíu Brynleifsdóttur, sem ekki gaf kost á sér til áframhaldandi setu. Magnús Gunnarsson gekk úr stjórn og hætti sem formaður Skógræktarfélags Íslands. Í hans stað var Jónatan Garðarsson kosinn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Valgerður Auðunsdóttir og Jens B. Baldursson.

Samþykktar ályktanir aðalfundar 2017 (.pdf)

Fundargögn:

DAGSKRÁ (.pdf)

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2016-2017 (.pdf)

Starfsskýrsla Landgræðslusjóðs (.pdf)

Ársreikningur 2016 – Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (.pdf)

Ársreikningur 2016 – Yrkjusjóður (.pdf)