79. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi dagana 15. -17. ágúst 2014. Skógræktarfélag Akraness, í samstarfi við Skógræktarfélag Skilmannahrepps, var gestgjafi fundarins. Á annað hundrað fulltrúar, víðs vegar af landinu, sóttu fundinn, sem var vel heppnaður.
Fundurinn hófst á föstudagsmorgni með ávörpum Magnúsar Gunnarsson, formanns Skógræktarfélags Íslands, Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, Jens B. Baldurssonar, formanns Skógræktarfélags Akraness, Jóns Loftssonar skógræktarstjóra og Ólafs Adolfssonar, formanns bæjarráðs Akraness.
Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)
Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – skýrsla stjórnar Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs, kynning reikninga félagsins, fyrirspurnir og skipun í nefndir. Einnig hélt Hannibal Hauksson ferðamálafulltrúi stutt erindi um Akranes. Eftir hádegisverð var svo farið í nefndastörf.
Að nefndastörfum loknum hélt Jón Guðmundsson erindi um eplarækt á Akranes, en því næst var farið í vettvangsferð. Byrjað var á skoðunarferð um Akranes, með viðkomu í garði Jóns, en síðan var stefnan tekin á Slögu, skógarreit Skógræktarfélags Akraness í hlíðum Akrafjalls, þar sem farið var í göngu um skóginn. Vettvangsferðin endaði svo í Garðalundi, þar sem boðið var upp á grillaðar pylsur og aðra hressingu.
Dagskrá laugardagsins hófst á fræðsluerindum. Jens B. Baldursson og Bjarni Þóroddsson fjölluðu um skógrækt á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit, Þorsteinn Hannesson, sérfræðingur hjá Elkem, fjallaði um nýtingu viðar í framleiðsluferli Elkem, Þorbergur Hjalti Jónsson fór yfir samstarf Skógræktar ríkisins við Elkem, Halldór Sverrisson sagði frá helstu nýju skaðvöldum í skógi og Else Möller fór yfir hvernig bæta mætti gæði og magn jólatrjáa í ræktun hjá skógræktarfélögunum.
Erindi – Þorsteinn Hannesson (pdf)
Erindi – Þorbergur Hjalti Jónsson (pdf)
Erindi – Halldór Sverrisson (pdf)
Erindi – Else Möller (pdf)
Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Fyrst var garðurinn við bæinn Gröf í Hvalfjarðarsveit skoðaður, en þaðan var haldið í Álfholtsskóg, svæði Skógræktarfélags Skilmannahrepps. Gengið var um skóginn og endað þar á hressingu og ljúfum harmonikkuleik, auk þess sem tvö tré voru hæðarmæld.
Dagskrá laugardags lauk svo á hátíðarkvöldverði og kvöldvöku í umsjón gestgjafanna, undir stjórn Gísla Gíslasonar, en þess má til gamans geta að hann var einnig veislustjóri síðast þegar aðalfundur var haldinn á Akranesi, árið 1992. Á kvöldvökunni voru fjórir aðilar heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar og voru það Bjarni O.V. Þóroddsson, Guðjón Guðmundsson, Stefán Teitsson og Þóra Björk Kristinsdóttir. Að auki voru þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir Skógræktarfélags Íslands. Tók Páll Ingþór Kristinsson, formaður Skógræktarfélags A-Húnvetninga (sem átti 70 ára afmæli) við skjali og alaskaepliplöntu af því tilefni, en ekki voru mættir fulltrúar frá öðrum afmælisfélögum á kvöldvökuna. Deginum lauk svo með balli.
Á sunnudeginum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, ályktana og kosning stjórnar. Magnús Gunnarsson var endurkjörinn formaður Skógræktarfélags Íslands og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sem hafði verið varamaður, kom ný inn í stjórn félagsins, í stað Gísla Eiríkssonar, sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Í varastjórn voru kosin Sigríður Heiðmundsdóttir, Kristinn H. Þorsteinsson og Laufey B. Hannesdóttir.
Umfjöllun um fundinn í Skógræktarritinu, 2. tbl. 2014 (pdf)
Fundargögn:
Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2013-2014 (pdf)
Starfsskýrsla Landgræðslusjóðs (pdf)