Skip to main content

Borgartré 2010 í Reykjavík

Með 22. ágúst, 2010febrúar 13th, 2019Fréttir frá skógræktarfélögum

Borgartré 2010 hefur verið valið og kynnti Jón Gnarr borgarstjóri tréð á Menningarnótt. Tréð er af tegundinni silfurreynir (Sorbus intermedia) og er í Víkurgarði á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis.

Georg Schierbeck landlæknir gróðursetti tréð 1884 , en hann fékk til umráða hinn gamla kirkjugarð Reykvíkinga sem þarna hafði staðið í 800 ár og hóf tilraunaræktun á trjám, matjurtum og blómum. Garðurinn varð fljótlega fyrirmynd landsmanna í ræktun og telst Schierbeck einn af frumkvöðlum þjóðarinnar í garðyrkju og skógrækt.

Silfurreynirinn er eina tréð í garðinum sem eftir er frá tíð Schierbecks og jafnframt elsta tré borgarinnar. Það er lifandi minnismerki um þennan merka frumkvöðul og þann tíma þegar garðyrkja og skógrækt voru að komast á legg hér á landi. Samkvæmt mælingu er hann nú 10,19 m á hæð.

Silfurreynir á uppruna sinn að rekja til Suður-Svíþjóðar en er ræktaður víða um heim og þykir bæði harðgerður og henta vel við umferðaræðar vegna þess hve loftmengun hefur lítil áhrif á hann. Þetta er krónumikið og svipmikið tré, náskylt reyniviðnum sem lengi hefur vaxið hér á landi.

Silfurreynirinn getur náð 200 ára aldri og á því umrætt tré í Víkurgarði að öllum líkindum eftir að lifa fram undir næstu aldamót.

Verkefnið Borgartré er þannig vaxið að Skógræktarfélag Reykjavíkur og garðyrkjustjóri, fyrir hönd borgarinnar, tilnefna árlega eitt tré í borgarlandinu. Tilgangurinn er að vekja athygli á merkilegum trjám sem nauðsynlegt þykir að varðveita og hlúa að í framtíðinni. Til greina geta komið ,,merkileg“ tré af ýmsum ástæðum, til dæmis vegna sögu sinnar, útlits eða fyrir að vera sjaldgæfrar tegundar. Með tilnefningunni fylgja upplýsingar um sögu viðkomandi trés og nýjar mælingar á því á sama tíma og borgarbúar eru hvattir til að rækta fleiri tré sömu tegundar þar sem við á.

Jón Gnarr borgarstjóri flytur ávarp við borgartréð (Mynd: Sk.Rvk).