Skip to main content

Dagur íslenskrar náttúru í Reykjavík

Með 16. september, 2011febrúar 13th, 2019Ýmislegt

Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar stendur fyrir lifandi dagskrá í hádeginu í Café Flóru  á Degi íslenskrar náttúru föstudaginn 16. september. Flutt verða örerindi fyrir gesti Café Flóru og gangandi í Grasagarði Reykjavíkur þar sem meðal annars verður fjallað um strandlengjuna, eldgos, sandstorma, rétt náttúrunnar, jóga og hagnýtar upplýsingar um hvernig nýta megi það sem til fellur í garðinum.

Auður Óskarsdóttir garðyrkjufræðingur mun til dæmis sýna gestum hvernig nýta megi afklipptar trjágreinar, Anna Rósa Böðvarsdóttir og Kristín Lóa Ólafsdóttir heilbrigðisfulltrúar munu kynna í örstuttu máli hreina strandlengju og mengandi sandstorma, Gunnar Hersveinn heimspekingur mun spyrja hvort náttúran njóti náttúruréttinda og Anna Ingólfsdóttir jógakennari mun bjóða gestum út fyrir garðskálann til æfinga. Umhverfis- og samgöngusvið mun bjóða gestum upp á heilsudrykk staðarins á meðan hann endist.

Unga fólkið fær einnig sýna skemmtun og fróðleik á vegum Umhverfis- og samgöngusviðs því 4. bekk grunnskólans verður boðið upp á náttúr-ratleik á vegum Grasagarðs Reykjavíkur frá kl. 9-13. Fjöldi hópa er takmarkaður og þurfa kennarar að áætla klukkustundarviðveru. Umsjón með þessum lið hafa Hildur Arna Gunnarsdóttir fræðslustjóri og Helena Óladóttir hjá Náttúruskóla Reykjavíkur.

Allir velkomnir!