Skip to main content

Er nauðsynlegt að eiturúð‘ana – lúpínuna?

Með júní 30, 2010febrúar 13th, 2019Ýmislegt

Skógrækt ríkisins og Skógræktarfélag Íslands boða til kynningar í fundarsal þeirra síðarnefndu að Skúlatúni 6 í Reykjavík, fimmtudaginn 1. júlí, kl. 14:00 á umsögn um lúpínuskýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræðslu ríkisins. Umsögnin, Athugasemdir til umhverfisráðherra um skýrsluna „Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi: Útbreiðsla, varnir og nýting”verður formlega kynnt og fyrirspurnum fjölmiðlafólks svarað af fulltrúum Skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Íslands. Allir eru velkomnir.

Niðurstöður sérfræðinga Skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Íslands eru í stuttu máli:

Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræðslu ríkisins hefur ekki verið sýnt fram á né færð rök fyrir þvílíkri skaðsemi eða ógn af lúpínu eða skógarkerfli að það réttlæti kostnaðarsamar aðgerðir hins opinbera til útrýmingar þessara plöntutegunda. Hins vegar er fyllsta ástæða til að rannsaka vistfræðilega hegðun og útbreiðslu þeirra nánar til að hægt verði að komast að því hvort slík ógn sé fyrir hendi og þá hvar og í hversu miklum mæli. Einungis ber að skoða mögulega ógn út frá forsendum sem snúa að líffræðilegri fjölbreytni, en ekki t.d. hugmyndum um ásýnd lands (sem er háð smekk og ekki hægt að ræða á hlutbundinn hátt). Þar með falla niður rök fyrir því að eyða lúpínu á öllu hálendinu, í hraunum og öðrum gosminjum yfirleitt og á a.m.k. sumum friðlýstum svæðum. Skoða ber bæði jákvæð og neikvæð áhrif lúpínu og skógarkerfils á alla þá þætti líffræðilegrar fjölbreytni sem varpa má ljósi á með vönduðum rannsóknum áður en ákvarðanir eru teknar um upprætingu. Ekki er réttlætanlegt að loka landinu fyrir nýjum tegundum sem styrkt gætu íslensk gróðurlendi, gert landið byggilegra og betur í stakk búið að standast ytri áföll, og jafnframt gert landnýtingu hér á landi sjálfbærari.

Bæði umsögnin og skýrslan eru aðgengileg á vefnum:

Athugasemdir til umhverfisráðherra um skýrsluna „Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi:Útbreiðsla, varnir og nýting (pdf)

Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi: Útbreiðsla, varnir og nýting (pdf)


lupinuskyrsla

(Mynd: RF).

X