Skip to main content

FRAKKLAND 2016

Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir fræðsluferð til Frakklands dagana 13. – 20. september. Var ferðin skipulögð í samráði við Gabriel Pic, fyrrverandi starfsmann Skógræktarfélags Íslands, sem er vel kunnugur svæðinu sem farið var um.

Flogið var til Genfar í Sviss þriðjudaginn 13. september, en þar var farið í rútu og ekið yfir til Frakklands, að fyrsta gististað í Beaufort. Á leiðinni var komið við í ostagerð að hætti heimamanna.

Miðvikudaginn 14. september voru skógar í nágrenni Beaufort skoðaðir, auk þess sem heimsótt var viðarvinnslufyrirtæki. Lauk deginum í bænum Lanslebourg, þar sem gist var næstu tvær nætur.

Daginn eftir, fimmtudaginn 15. september, var byrjað á að skoða fellingu timburs og vinnsluaðferðir, en eftir hádegi var haldið í Vanoise þjóðgarðinn og hann skoðaður undir leiðsögn þjóðgarðsvarðar.

Föstudaginn 16. september var Lanslebourg yfirgefið og stefnan tekin til Briancon. Ekin var falleg leið, um fjallaskörð, sem lá meðal annars aðeins yfir landamærin til Ítalíu og meðfram fallegu stöðuvatni, Lac du Mont Cenis.  Komið var til Briancon um kvöld þar sem gist var tvær nætur.

Laugardaginn 17. september var farið í skoðunarferð um Briancon, skoðaður skógur í Col de l’Izoard  og heimsótt handverksmiðstöð.

Daginn eftir, sunnudaginn 18. september, var svo komið að heimsókn í Jardin Botanic du Lautaret grasagarðinn, sem liggur í um 2.100 m hæð. Þaðan var haldið til Grenoble, þar sem gist var síðustu tvær næturnar.

Mánudagurinn 19. september var svo frjáls dagur og gafst ferðalöngunum tækifæri til að skoða sig um í Grenoble. Daginn eftir var svo ekið til Genfar, þaðan sem flogið var heim og lent í Keflavík síðdegis.

Í 1. tölublaði Skógræktarritsins 2017 er grein um ferðina og má lesa hana hér (.pdf).

frakkland