Skip to main content

Fuglavernd: Fuglaskoðun í Vatnsmýri og Friðlandinu í Flóa

Með júní 1, 2013febrúar 13th, 2019Ýmislegt

Laugardaginn 1. júní nk. býður Fuglavernd áhugasömum upp á tvær fuglaskoðanir, annars vegar í Vatnsmýrinni og í kringum Tjörnina og hins vegar í Friðlandinu í Flóa. Ókeypis er í báðar fuglaskoðanirnar og allir velkomnir. Mikilvægt er að vera vel skóaður, muna eftir sjónauka og jafnvel handbók um fugla.

Fuglaskoðunin í Vatnsmýrinni og í kringum Tjörnina er leidd af Aron Leví og hefst kl. 16:00 frá anddyri Norræna hússins. Hún stendur yfir í u.þ.b. 1 klst. og skoðað verður fuglalífið á Hústjörn, Vatnsmýrartjörn, Þorfinnstjörn, Suðurtjörn og Norðurtjörn. Fuglaskoðunin er haldin í samvinnu við Norræna húsið og er á vegum nýstofnaðs félagsskapar sem kallar sig Hollvini Tjarnarinnar. Markmið þeirra er að hlúa að lífríki Tjarnarinnar, m.a. með hreinsun og hreiðurgerð. Félagsskapurinn er opinn öllum og hægt er að skrá sig á fuglavernd@fuglavernd.is.

Friðlandið í Flóa er ein af skrautfjöðrum Fuglaverndar og þar mun Hjálmar A. Jónsson leiða skoðunina á laugardaginn. Mæting er við fuglaskoðunarskýlið við bílastæðið í Friðlandinu og hefst hún kl. 16:30. Nú á varptíma er tilvalinn tími til að skoða hina fjölbreyttu fánu votlendisfugla, en nærri 25 tegundir verpa að staðaldri í Friðlandinu. Einnig er áhugavert að sjá gróðurinn vakna til lífsins eftir vetrardvala.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Fuglaverndar, www.fuglavernd.is.


fuglavernd-fuglaskodun-juni

(Mynd: Helgi Skúlason).

X