Skip to main content

Fuglaverndarfélag Íslands: Garðfuglar

Með apríl 17, 2012febrúar 13th, 2019Fundir og ráðstefnur

Fuglaverndarfélag Íslands stendur fyrir  fyrirlestri um garðfugla  17. apríl i húsakynnum Arion banka í Borgartúni 19, kl. 20:30.

Garðar eru mikilvæg búsvæði fyrir suma íslenska fugla, þó svo að vægi þeirra sé líklega ekki eins mikið og í sumum nágrannalöndunum.  Félagar Fuglaverndar hafa um árabil fylgst með fuglalífi í görðum víðsvegar um landið til þess að athuga hvaða fuglar nýti sér helst íslenska garða yfir vetrartímann. Garðfuglar kallast þeir fuglar sem sjást í görðum og nýta sér þá til lífsviðurværis. Garður er svæði við hús eða híbýli, allt frá grasflöt eða matjurtagarði til gamalgróins trjágarðs með margar tegundir trjáa og runna.

Garðfuglar geta verið fuglar sem gera garðinn að óðali sínu yfir sumartímann, byggja sér hreiður í trjám eða undir þakskeggi og ala þar upp unga sína.  Einnig geta þetta verið fuglar sem koma í garðinn til að afla sér fæðu eða leita sér skjóls á öllum árstímum. Þetta geta verið íslenskir staðfuglar eða erlendir vetrargestir eða flækingsfuglar.
 
Könnun á garðfuglum á Íslandi hófst árið 1994 með Garðfuglakönnun Fuglaverndar. Þar skrá þátttakendur garðfugla yfir veturinn frá byrjun nóvember  til aprílloka. Garðfuglahelgi er hins vegar atburður þar sem þátttakendur fylgjast með fuglalífi í garði hluta úr degi, yfirleitt í eina klst. yfirleitt síðustu helgi í janúar ár hvert.

Í fyrirlestrinum munu Ólafur Einarsson og Örn Óskarsson framhaldsskólakennarar og líffræðingar fjalla um helstu niðurstöður úr Garðfuglakönnunum og Garðfuglahelgi og kynna helstu tegundir garðfugla í íslenskum görðum.

Fuglavernd lofar því að fyrirlestrinum fylgi fallegar garðfuglamyndir.

Fræðslufundir Fuglaverndar eru haldnir í húsakynnum Arion banka í Borgartúni 19 en gengið er inn um aðalinngang hússins á austurhlið hússins. Fundurinn hefst klukkan 20:30 og er öllum opinn svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra.

X