Skip to main content

Fulltrúafundur 2008

Með 12. maí, 2009apríl 17th, 2019Fulltrúafundir

Tekið var upp nýtt fyrirkomulag á fulltrúafundinum árið 2008, þar sem í stað eins fundar í Reykjavík voru haldnir nokkrir  fundir úti á landi. Árið 2008 voru haldnir fundir á Akureyri, Hótel Hamri í Borgarfirði og á Skógum.

Fulltrúafundur Akureyri

Fyrsti Fulltrúafundurinn var haldinn í blíðskaparveðri á Akureyri laugardaginn 5. apríl. Fundurinn hófst með ávarpi Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands. Því næst tók til máls Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri Akureyrar, en hún hvarf svo af braut til að sinna afmæli sonar síns. Var þá komið að skógræktarfélögum á Norðurlandi að kynna starfsemi sína. Mættir voru fulltrúar frá fimm félögum. Agnes Þórunn Guðbergsdóttir, formaður Skógræktarfélags S-Þingeyinga, reið á vaðið. Því næst kynnti Ingibjörg Axelsdóttir starfsemi Skógræktarfélags Skagfirðinga. Næstur tók til máls Páll Ingþór Kristinsson, formaður Skógræktarfélags A-Húnvetninga. Því næst kynnti Margrét Jónsdóttir Skógræktarfélag N-Þingeyinga, með innslagi frá Erlu Óskarsdóttur. Seinasta kynning var svo á Skógræktarfélagi Eyfirðinga og sá Sigrún Stefánsdóttir, formaður félagins, um það, en hún var einnig fundarstjóri. Einnig steig í pontu Vilhjálmur Lúðvíksson, formaður Garðyrkjufélagsins og varamaður í stjórn Skógræktarfélags Íslands.

Eftir hádegismat voru svo tvö erindi. Fyrst fjölluðu Brynjólfur Jónsson og Einar Gunnarsson, frá Skógræktarfélagi Íslands, um Landgræðsluskógana og nýjungar í starfi, sérstaklega fyrirsjáanlegar breytingar tengdar frystingu á plöntum. Því næst fjallaði Hallgrímur Indriðason, skógræktarráðunautur á skipulagssviði hjá Skógrækt ríkisins, um skipulagsmálin í sveitarfélögum.

Var fundi síðan slitið og haldið í skoðunarferð í Kjarnaskóg, enda viðraði sérlega vel til útivistar, þar sem veður var stillt og heiðríkt. Þar tók Bergsveinn Þórsson á móti fundarmönnum og leiddi gönguferð um skóginn . Gönguferðinni lauk í gróðrarstöðinni í Kjarna, Sólskógum, þar sem Katrín Ásgrímsdóttir tók á móti hópnum og bauð upp á ketilkaffi og kræsingar.

Fulltrúafundur Hótel Hamri

Annar Fulltrúafundur skógræktarfélaganna var haldinn á Hótel Hamri í Borgarfirði laugardaginn 12. apríl. Fundurinn hófst með ávarpi Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands. Því næst tók til máls Páll S. Brynjarsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, og sagði frá Borgarbyggð. Þá var komið að skógræktarfélögum frá Vesturlandi og Suðvesturlandi að kynna starfssemi sína, en mættir voru fulltrúar frá tólf félögum, auk eins fulltrúa frá Norðurlandi. Hjördís Geirdal, formaður Skógræktarfélags Borgarfjarðar, reið á vaðið, en hún var jafnframt fundarstjóri. Næstur steig í pontu Skúli Alexandersson, formaður Skógræktar- og landverndarfélagsins undir Jökli. Því næst kynnti Gústaf Jarl Viðarsson Skógræktarfélagið Dafnar, en það hefur nokkra sérstöðu meðal skógræktarfélaga, því félagar þess eru nemar í Landbúnaðarháskóla Íslands. Næst tók til máls Margrét Guðjónsdóttir, formaður Skógræktarfélags Heiðsynninga, og lauk hún máli sínu á því að fara með vísu. Því næst kynnti Bjarni O.V. Þóroddsson tvö félög, Skógræktarfélag Skilmannahrepps og Skógræktarfélag Akraness. Næstur á mælendaskrá var svo Þorvaldur Böðvarsson og kynnti hann Skógræktarfélag V-Húnavatnssýslu. Á eftir honum fylgdi svo Gunnar Njálsson, formaður Skógræktarfélags Eyrarsveitar. Var því næst komin röðin að skógræktarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Elísabet Kristjánsdóttir, formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar, reið á vaðið, en því næst tók til máls Jónatan Garðarsson og kynnti Skógræktarfélag Hafnarfjarðar. Kristján Bjarnason fjallaði svo um Skógræktarfélag Reykjavíkur og á eftir honum kom Halldór Halldórsson, formaður Skógræktarfélags Skáta við Úlfljótsvatn. Erla Bil Bjarnardóttir, formaður Skógræktarfélags Garðabæjar, steig svo næst í pontu og síðast en ekki síst kom Jónína Stefánsdóttir og kynnti starfsemi Skógræktarfélags Kópavogs. Eftir nokkrar umræður var svo haldið í hádegismat.

Eftir hádegismat voru svo þrjú erindi. Fyrst fjallaði Einar Gunnarsson, frá Skógræktarfélagi Íslands, um breytingar á geymslu og flutningum trjáplantna, sérstaklega tengdar frystingu á plöntum. Því næst fjallaði Sigríður Björk Jónsdóttir, varaformaður skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar um skipulagsmál í sveitarfélögum og spunnust töluverðar umræður um það mál. Seinastur á mælendaskrá var svo Ragnar Frank Kristjánsson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem hélt aðeins áfram með skipulagsmál og skógrækt.

Var fundi síðan slitið og haldið út í sólskinið. Byrjað var á að ganga upp að gamla bænum á Hamri, sem nú er klúbbhús Golfklúbbs Borgarness, þar Guðmundur Eiríksson sagði frá ræktun skjólbelta og trjáa við golfvöllinn. Því næst var haldið út í skóg í Einkunnum, þar sem boðið var upp á hressingu og Björg Gunnarsdóttir, umhverfis- og upplýsingafulltrúi Borgarbyggðar, sagði frá svæðinu.

Fulltrúafundur Skógum
Þriðji fulltrúafundur skógræktarfélaganna var haldinn á Skógum undir Eyjafjöllum laugardaginn 22. nóvember. Fundurinn hófst með ávarpi Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, en á eftir honum hélt Ólafur Eggertsson, oddviti Rangárþings eystra, ávarp. Valborg Einarsdóttir, hjá Garðyrkjufélagi Íslands, hélt svo erindi um innlend efni í blómaskreytingar úr skóginum. Því næst kynntu skógræktarfélög á Suðurlandi starfsemi sína, en mættir voru fulltrúar frá þremur félögum. Rannveig Einarsdóttir kynnti skógræktarfélag A-Skaftfellinga, Valgerður Auðunsdóttir kynnti starfsemi Skógræktarfélags Árnesinga og Sigríður Heiðmundsdóttir fjallaði um Skógræktarfélag Rangæinga. Auk þess kynnti Sigríður Jónsdóttir Skógræktarfélag Hrunamannahrepps, en það er deild í Skógræktarfélag Árnesinga.  Í lok fundar fjallaði Brynjólfur Jónsson, Skógræktarfélagi Íslands, um drög að aðgerðaáætlun um atvinnuskapandi verkefni.