Skip to main content

Fulltrúafundur 2013

Með 6. apríl, 2013apríl 17th, 2019Fulltrúafundir

Fulltrúafundur Skógræktarfélags Íslands 2013 var haldinn í Hestamiðstöð Íshesta við Kaldárselsveg í Hafnarfirði laugardaginn 6. apríl. Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, setti fundinn, en því næst flutti Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, stutt ávarp. Að því loknu komu fulltrúar þeirra félaga sem mætt voru hver á fætur öðrum upp í pontu og sögðu frá því helsta sem viðkomandi félag er að fást við. Eins og gefur að skilja er það nokkuð misjafnt eftir aðstæðum á hverjum stað og stærð skógræktarfélaga.

Að loknum hádegisverði voru svo þrjú áhugaverð erindi flutt. Gísli Eiríksson, formaður Skógræktarfélags Ísafjarðar, fjallaði um Landgræðsluskóga, en hann er formaður nefndar sem fer með málefni þeirra. Fór hann sérstaklega yfir úttekt er gerð var á Landgræðsluskógum og athugun með útboð á grisjun í skógunum. Því næst tók til máls Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóga hjá Skógrækt ríkisins og sagði frá nýafstaðinni vinnu að stefnumótun um skógrækt, helstu þætti hennar og næstu skref í þeim málum. Einnig kom hann inn á grisjunarþörf í skógum á Íslandi. Í síðasta erindinu fjallaði Hulda Guðmundsdóttir, skógarbóndi á Fitjum, um gróðurelda og fór yfir ýmsa þætti er lúta að hættumati á gróðureldum, sem og tryggingamál því tengt. Spunnust miklar umræður um öll erindin.

Fundinum lauk svo formlega með gönguferð um Höfðaskóg undir leiðsögn Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, en hann var einnig fundarstjóri á fundinum. Gönguferðinni lauk svo aftur í Hestamiðstöðinni, þar sem hressing beið þátttakenda og eins og verða vill þegar skógræktarfólk kemur saman urðu þar áfram miklar umræður um hin ýmsu málefni skógræktar.