Skip to main content

Fulltrúafundur skógræktarfélaganna

Með 28. febrúar, 2011apríl 17th, 2019Fundir og ráðstefnur

Laugardaginn 26. febrúar var fulltrúafundur skógræktarfélaganna haldinn í Harðarbóli í Mosfellsbæ og var Skógræktarfélag Mosfellsbæjar gestgjafi fundarins. Þema fundarins að þessu sinni voru hinar ýmsu skógarnytjar. Á fundinn mættu um 60 fulltrúar frá skógræktarfélögum um land allt.

Fundurinn hófst með ávörpum Þuríðar Yngvadóttur, formanns Skógræktarfélags Mosfellsbæjar og Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélag Íslands, en síðan tóku við fræðsluerindi. Fyrstur tók til máls Björgvin Eggertsson, frá Landbúnaðarháskóla Íslands og fjallaði hann um jólatré – framleiðslu þeirra hérlendis, hlutdeild af markaði og framtíðarhorfur. Því næst fjallaði Steinar Björgvinsson, Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, um trjágreinar sem skreytingarefni, en hann vann lokaverkefni í skógrækt um mat á hentugleika efniviðar úr íslenskri skógrækt til skreytingagerðar. Síðan tók til máls Bjarni Diðrik Sigurðsson, Landbúnaðarháskóla Íslands, og fjallaði hann um sveppi og sveppatínslu. Fór hann yfir helstu matsveppi sem finnast í íslenskum skógum og mat á verðmæti þeirra.

Eftir hádegismat fjallaði Karen Pálsdóttir, Háskóla Íslands, um ber og berjatínslu í Heiðmörk, sem hún rannsakaði sem hluta af stærra verkefni um virði Heiðmerkur. Þá fjallaði Ólafur Erling Ólafsson, Skógræktarfélagi Reykjavíkur, um viðarafurðir – helstu sem nú eru og hugmyndir um framtíðarnot. Björn Traustason, Skógrækt ríkisins, fjallaði svo stuttlega um skógarstaðal sem unnið hefur verið að og prófun hans á einum skógarreita Skógræktarfélags Mosfellsbæjar. Lilja Oddsdóttir kynnti svo félagið Á-vöxtur, sem er hvatafélag um ræktun ávaxtatrjáa á Íslandi.

Eftir töluverðar umræður um efni erinda var haldið í skoðunarferð um nokkra skógarreiti Skógræktarfélags Mosfellsbæjar. Byrjað var í Hamrahlíð, þar sem Ólafur Erling Ólafsson sýndi  útkeyrsluvél, sem Skógræktarfélag Reykjavíkur fékk í byrjun nóvember. Því næst var ekið að nýju sumarhúsi Skógræktarfélag Mosfellsbæjar við Hafravatn, en það var byggt í stað húss sem brann í fyrra. Litið var um í Þormóðsdal og svo kíkt á skógarreiti í Mosfellsdal.

Fundinum lauk svo með samkomu í Harðarbóli, félagsheimili Hestamannafélagsins Harðar.

09
Fundargestir skoða skógarreit Skógræktarfélags Mosfellsbæjar í Hamrahlíð (Mynd: BJ)