Skip to main content

NOREGUR 2014

Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir fræðsluferð til Sogn- og Fjarðafylkis í Noregi dagana 30. ágúst til 5. september. Var ferðin skipulögð í samstarfi við Skógræktarfélagið í Sogn- og Fjarðafylki (Sogn og Fjordane Skogselskap). Var ferðast um og skoðaðir skógar, sögustaðir og falleg náttúra svæðisins.

Ferðin hófst með flugi til Bergen laugardaginn 3. ágúst. Ekkert var á dagskránni þennan dag, annað en að koma sér fyrir á hóteli í bænum og fengu ferðalangarnir því frjálsan tíma það sem eftir lifði dags.

Sunnudagurinn 31. ágúst hófst með leiðsögn um gömlu bryggjuna í Bergen, sem er á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og endaði skoðunarferðin á hádegisverði í boði Skógræktarfélags Hörðalands. Að því loknu var haldið til Sæheims (no. Seim), sem er fornt konungasetur og skoðaður nyrsti beykiskógur Noregs í Lindås. Þaðan var haldið til Gulafjarðar og skoðaðir þingstaðir Gulaþings.

Daginn eftir, mánudaginn 1. september, var haldið til Rivedal, en þaðan er talið að Ingólfur Arnarson og Hjörleifur fóstbróðir hans hafi ýtt úr vör og haldið til Íslands. Þaðan var haldið til Dale, þar sem var eitt sinn tunnuverksmiðja og næst á dagskránni voru tvö býli, Osen og Rytnetunet, þar sem ferðalangarnir fræddust um búskapinn, sérstaklega jólatrjáa- og grenirækt á Rytnetunet. Dagurinn endaði svo í Florö.

Dagskrá þriðjudagsins 2. september hófst á heimsókn í bæjarskóginn í Florö og því næst var strandsafnið í bænum skoðað. Næst var stefnan tekin á gróðrarstöð í Brandsöy og skógurinn kringum stöðina skoðaður. Deginum lauk svo með veislu í rekstrarbyggingu gróðrarstöðvarinnar í boði heimamanna.

Miðvikudaginn 3. september var byrjað á að skoða sögunarmyllur í Indrehus og Eid. Því næst var haldið til Skredestranda þar sem fylgst var með skógarhöggi í bröttum hlíðum.

Fimmtudagurinn 4. september hófst á skoðunarferð um Amlaskogen, en að því loknu var haldið til Kaupanger Hovedgård, þar sem meðal annars var skoðuð stafkirkja og frægarður af rauðgreni. Þá var haldið til gististaðar, Kviknes Hotel í Balestrand, en það er ein stærsta timburbygging í Noregi.

Í 2. tölublaði Skógræktarritsins 2014 er grein um ferðina og má lesa hana hér (pdf).

ingvaraberge-granskog 1
(Mynd: Ingvar Åberge)