Skip to main content

Landbúnaðarháskóli Íslands: Opið hús hjá garðyrkjubrautum

Með 16. apríl, 2011febrúar 13th, 2019Ýmislegt

Næstkomandi laugardag, þann 16. apríl, verður opið hús hjá garðyrkjubrautum LbhÍ á Reykjum í Ölfusi (gamla Garðyrkjuskóla ríkisins) frá kl. 10-18.  Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá allan daginn (sjá neðar) og má með sanni segja að öll fjölskyldan geti fundið eitthvað við sitt hæfi.  Fyrir börnin verður boðið upp á andlitsmálun og þau geta fengið að fara á hestbak auk þess sem umhverfið í bananahúsinu er töfraveröld sem börnin kunna vel að meta.  Fyrir fullorðna fólkið má nefna fræðsluerindi um ræktun aldintrjáa kl. 13 og fræðslu um ræktun kryddjurta kl. 15:30.

Hátíðardagskrá
Fundarstjórn: Björgvin Örn Eggertsson
14:00 – 14:05 Setning Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari Reykjum
14:05 – 14:25 Garðyrkjuverðlaun 2011 – Menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir
14:25 – 14:30 Tónlistaratriði
14:30 – 14:50 Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar – Forseti Ísland Ólafur Ragnar Grímsson
14:50 – 14:55 Tónlistaratriði

Námið á Reykjum
Á Reykjum í Ölfusi starfar Starfs– og endurmenntunardeild Landbúnaðarháskólans. Þar er boðið upp á garðyrkjutengt nám á fjórum brautum: blómaskreytinga-, garðplöntuframleiðslu-, skógar- og umhverfis- og skrúðgarðyrkjubraut. Einnig er boðið upp á fjölbreytt endurmenntunarnámskeið bæði fyrir fagfólk og almenning. Næst verða teknir nemendur á þessar brautir haustið 2012. Leitið upplýsinga á heimasíðu skólans
eða í síma 433 5000.

Endurmenntun
Kynnt verða endurmenntunarnámskeið á vegum Landbúnaðarháskólans. Í boði er fjöldi námskeiða (sjá einnig hér), hvort sem er fyrir fólk innan landbúnaðarins og áhugafólk. Komið og fáið allar upplýsingar um þau námskeið sem framundan eru.

Sala og kaffiveitingar
Í skólabyggingunni er markaðstorg þar sem seldar eru garðyrkjuafurðir. Allt eru þetta úrvals vörur frá íslenskum framleiðendum. Í mötuneyti skólans er boðið upp á kaffi og heimabakað meðlæti. Kaffiveitingarnar á Reykjum eru fastur liður í sumarkomunni hjá mörgum.

Kynningar – skemmtun – fræðsla
Í garðskála er að finna kynningarbása frá ýmsum aðilum. Þar er hægt að kaupa ýmsar vörur og fræðast um margt. Nemendur í blómaskreytingum verða við vinnu og útbúa skreytingar. Stutt fræðsluerindi verða í kennslustofum og hægt verður að spyrjast fyrir um það sem heitast brennur á ræktendum. Í Bananahúsinu er hægt að skoða hitabeltisgróður og sjá bananana þroskast á trjánum. Í verknámshúsi skrúðgarðyrkjunnar eru fyrirtæki á garðyrkjusviðinu að kynna nýjungar fyrir sumarið. Þarna má t.d. sjá (kl. 13) kynningu á rósarækt undir LED lömpum í klefa 9 í tilraunagróðurhúsinu. Einnig verða kynntir nýir LED lampar. Sjá nánar hér. Pottaplöntusafn skólans verður til sýnis. Einnig er margt um að vera á útisvæðum skólans. Ýmis afþreying verður í boði fyrir börnin.

Annað skemmtilegt í Hveragerði á laugardaginn!
Kl. 10 Ljóðalestur við sundlaugina
Kl. 12 Páskaeggjaleit við sundlaugina
Hádegið: Tveir fyrir einn í hádegisverð á Heilsustofnun NLFÍ. Frítt í mat fyrir yngri en 12 ára. Frítt í sund í baðhúsi Heilsustofnunar NLFÍ.
Kl. 16 Leiðsögn um sýningar í Listasafni Árnesinga, Austurmörk 21.