Skip to main content

Opið hús – nýjar bækur fyrir ræktunarfólk

Með desember 14, 2014febrúar 13th, 2019Ýmislegt

Sumarhúsið og garðurinn hefur í ár gefið út tvær bækur í bókaflokknum Við ræktum. Verður opið hús sunnudaginn 14. desember kl. 14:00 – 18:00 að Fossheiði 1, Selfossi, til að fagna útgáfu Belgjurtabókarinnar sem kom út í byrjun mánaðarins. 

Höfundur bókarinnar, Sigurður Arnarson, fjallar um hina stóru og fjölbreyttu ætt belgjurta af þekkingu og reynslu sem garðeigandi og fyrrum skógarbóndi.

Í bókinni er ítarleg og vönduð umfjöllun um heila ætt plantna sem er jöfnum höndum nefnd belgjurtaætt og ertublómaætt á íslensku. Innan þessarar ættar eru tré, runnar og jurtir sem gæddar eru þeim eiginleika að geta nýtt gerla til að binda nitur andrúmsloftsins sér til hagsbóta. Slíkar plöntur spara áburðargjöf og stuðla að gróskumeira vistkerfi.

Á Íslandi má nýta þær í landbúnaði, skógrækt, garðrækt og landgræðslu. Fjallað er um tegundir innan ættarinnar sem einhver reynsla er af á Íslandi en einnig aðrar áhugaverðar plöntur sem margar hverjar eru líklegar til að geta þrifist hér á landi.

Einnig verður kynnt bókin Aldingarðurinn, eftir Jón Guðmundsson garðyrkjufræðing, sem kom út í sömu ritröð fyrr á árinu.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Sumarhússins og garðsins, www.rit.is.

belgjurtir cover-2014