Skip to main content

Ráðstefna um landnotkun

Með 28. janúar, 2010febrúar 13th, 2019Fundir og ráðstefnur

Ráðstefna um landnotkun verður haldin á Hótel Selfossi, fimmtudaginn 28. janúar 2010. Ráðstefnan er haldin í samvinnu Rannsókna- og fræðaseturs HÍ á Suðurlandi og Háskólafélags Suðurlands. Markmið með ráðstefnunni er að ræða landnotkunarmál á breiðum faglegum grunni en landnotkun er margslunginn málaflokkur þar sem einstök málefni eru oftar rædd í einangrun. Landnotkun skiptir alla máli og hefur grundvallaráhrif á flesta þætti mannlífsins, svo sem búsetu, matvælaframleiðslu og frístundir. Tekist hefur að ná saman einvalaliði fyrirlesara sem ræða munu um landnotkun í fjórtán 20 mínútna fyrirlestrum. Fyrirlestrar skiptast í tvo flokka. Sá fyrri varðar ramma landnýtingar, bæði manngerðan líkt og lögfræði og skipulagsmál en einnig dreifingu grunnauðlinda, vatns og jarðvegs. Seinni hlutinn er þematengdur en þar verður gerð grein fyrir viðamestu flokkum landnotkunar, svo sem orkuvinnslu, ræktun og búsetu.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra mun setja ráðstefnuna og Atli Harðarson heimspekingur mun greina hismi frá kjarna í lokin.

Ráðstefnan hefst kl. 9 með afhendingu ráðstefnugagna og áætlað er að henni muni ljúka um kl. 17.

Ráðstefnugjald er 7500 kr. en 3500 kr. fyrir námsmenn. Hádegisverður og kaffitímar innifaldir.

Dagskrá og nánari upplýsingar hér.