Skip to main content

Sala á jólatrjám hjá skógræktarfélögum helgina 7.-8. desember

Með 5. desember, 2013febrúar 13th, 2019Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélög víða um land selja jólatré núna fyrir jólin. Þau félög sem verða með jólatrjáasölu helgina 7.-8. desember eru:

Skógræktarfélag Árnesinga er með jólatrjáasölu á Snæfoksstöðum í Grímsnesi, báða dagana kl. 10-16. Sjá nánar á heimasíðu félagsins – skogarn.is

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með jólatrjáa- og skreytingasölu í Selinu, bækistöðvum félagsins og Þallar, við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Opið báða dagana kl. 10-18. Sjá nánar á heimasíðu félagsins – skoghf.is

Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Jólamarkaðinum á Elliðavatni, opið báða dagana kl. 11-16. Á laugardeginum verður kveikt á jólatré markaðarins kl. 14:30, en á hverju ári býður Skógræktarfélagið hönnuði eða listamanni að skreyta tréð og er það Tinna Ottesen hönnuður sem skreytir tréð í ár. Jólaskógurinn í Hjalladal á Heiðmörk opnar svo þann 7. desember og verður opinn báða dagana kl. 11-16. Mun Jón Gnarr borgarstjóri fella fyrsta tréð kl. 11 á laugardeginum, en auk hans hefur jólasveinn boðað komu sína á svæðið. Sjá nánar á heimasíðu félagsins – heidmork.is.

Fossá í Hvalfirði – Skógræktarfélög Kópavogs, Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósarhrepps eru með jólatrjáasölu á Fossá í Hvalfirði báða dagana kl. 10:30-15. Sjá nánar á heimasíðu Skógræktarfélags Kópavogs – skogkop.net.

Jólatrjáasala hjá Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar í Hamrahlíð við Vesturlandsveg hefst svo miðvikudaginn 11. desember og er opin alla daga til 23. desember. Opnunartími kl. 10-16 um helgar, en kl. 12-16 virka daga.
 

Nánari upplýsingar á jólatrjáavef skógræktarfélaganna á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands – www.skog.is.