Skip to main content

Sérlög um Heiðmörk?

Með apríl 9, 2010febrúar 13th, 2019Fréttir frá skógræktarfélögum

Á aðalfundi Skógræktarfélags Reykjavíkur nýverið var samþykkt að beina því til umhverfisráðherra að hann beiti sér fyrir lagasetningu um Heiðmörk, tilgang hennar og markmið, í samstarfi við eigendur og umsjónaraðila útivistarsvæðisins í Heiðmörk.

Aðalfundur Skógræktarfélags Reykjavíkur, haldinn 7. apríl 2010, samþykkir eftirfarandi:

Heiðmörk er helsta útivistarsvæði höfuðborgarinnar og nágrannabyggðarlaga. Aðdráttarafl þess eykst í samæmi við aukna gróðursæld þar og á hverju ári fjölgar þeim sem þangað sækja. Kannanir sýna að árlega kemur fleira fólk í Heiðmörk en sækir heim sjálfan þjóðgarðinn á Þingvöllum.

Þau atvik hafa orðið á allra síðustu árum sem benda eindregið til þess að framtíð þessarar náttúruperlu, sem útivistarsvæði fyrir almenning, sé ekki tryggð. Við því þarf að bregðast með þeim hætti sem dugir. Fundurinn samþykkir að félagið beiti sér fyrir því að sett verði sérstök lög um málefni Heiðmerkur með norska löggjöf um Oslóarmörk sem fyrirmynd. Jafnframt samþykkir fundurinn að beina því til umhverfisráðherra að taka frumkvæði til að ná þessu markmiði og leiða þá til samstarfs sem helst eiga hagsmuna að gæta á svæðinu, til að sem sterkust samstaða geti náðst um málið.

Samþykkt samhljóða.

Hægt er að skoða lögin um Oslomarka á vefnum, einnig má finna almennar upplýsingar um Oslomarka á heimasíðu svæðisins.

X