Skip to main content

Skógardagur Norðurlands

Með 19. ágúst, 2017febrúar 13th, 2019Ýmislegt

Skógardagur Norðurlands verður haldinn laugardaginn 19. ágúst kl. 13-16 í Kjarnaskógi, í tilefni 70 ára afmælis Kjarnaskógar. Nýtt útivistar- og grillsvæðið á og við Birkivöll verður formlega tekið í notkun. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri ávarpar afmælisbarnið og skrifað verður undir samning um nýjan Yndisgarð sem fyrirhugað er að koma upp í skóginum með úrvali skrautrunnategunda.

Fræðsla verður um Yndisgarðinn í „fundarsal“ sem útbúinn hefur verið undir greinum stórra grenitrjáa í skóginum. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur sýnir ýmsar sveppategundir sem lifa í skóginum. Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktarinnar, kennir réttu handbrögðin við tálgun og fólk fær að prófa að tálga töfrasprota og fleira. Skátar kynna hátíð sem fer fram á Hömrum um kvöldið og svo verður auðvitað ketilkaffi, lummur, popp, svaladrykkir, sveppasúpa, ratleikur, fræðsluganga um Birkivöll og nágrenni ásamt fleiru. 

Að Skógardegi Norðurlands standa Skógræktarfélag Eyfirðinga, Skógræktin, Félag skógarbænda á Norðurlandi, Sólskógar og Akureyrarbær.

Kynningarspjald (pdf)